
Stjórnarandstaðan samstíga í ESB máli
Formaður Samfylkingarinnar segir verið sé að athuga með þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu, en einnig hafi mögulegt vantraust á utanríkisráðherra verið rætt.
Má búast við fjörugum umræðum á Alþingi í dag
Alþingi kemur saman í dag í fyrsta sinn eftir að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra afhenti Evrópusambandinu bréf þess efnis að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki að sambandinu og er viðbúið að það mál verði rætt á þingfundi eftir hádegið. Þar verður forsætisráðherra viðstaddur óundirbúnar fyrirspurnir og á morgun mun síðan utanríkisráðherra gefa þinginu munnlega skýrslu. Leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafa ráðið ráðum sínum um helgina og í morgun, segir Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar.
„Það skiptir miklu máli að við stöndum þétt saman í þeirri baráttu sem framundan er til að verja grundvallar leikreglur þingræðisins,“ segir hann.
Stjórnarandstaðan hefur svipaða sýn á málið
Eitt af því sem rætt hefur verið um er að leggja fram sameiginlega þingsályktunartillögu um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna. Eins og kunnugt er hefur áður staðið til að leggja fram sameiginlega tillögu á þessum nótum, en ekkert varð úr vegna ágreinings um orðalag og spurningar. Árni Páll segir ekkert slíkt á ferðinni núna, stjórnarandstaðan hafi mjög líka sýn á málið. Annað sem komið hefur til tals er tillaga um vantraust á utanríkisráðherra.
„Það hefur auðvitað allt verið rætt sem verið hefur í opinberri umræðu á undanförnum dögum, en við munum taka málin í réttri röð,“ segir Árni Páll. „Fyrst á dagskrá er auðvitað að ræða stöðu Alþingis og virðingu þess og með hvaða hætti hægt sé að taka til varna fyrir þingræðið í landinu. “
Framkvæmdastjórnin fylgist með atburðum á Íslandi
Margaritis Schinas talsmaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins var spurður á reglubundnum blaðamannafundi í morgun hvort að til stæði að svara bréfinu sem formenn stjórnarandstöðuflokkanna íslensku sendu um helgina og hvort hann gæti túlkað bréfið fræga frá íslenska utanríkisráðherranum, hvort að Ísland teldist enn umsóknarríki að Evrópusambandinu.
Schinas svaraði því til að framkvæmdastjórnin svaraði ávallt bréfum sem henni bærust og að fylgst hefði verið með atburðum helgarinnar á Íslandi. Hann sagðist ekki geta bætt meiru við í bili, en von sé á frekari viðbrögðum í dag.