Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Stjórnarandstaðan ófeimin við að ljúga

24.11.2013 - 18:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Forsætisráðherra segir stjórnarandstöðuna svo hræðilega svekkta með úrslit síðustu þingkosninga að hún sýni ítrekað þá ósvífni að segja ósatt. Það muni hún líka gera í umræðum næstu vikna um skuldaniðurfellingartillögur ríkisstjórnarinnar.

Tillögur ríkisstjórnarinnar um skuldaniðurfellingu heimilanna verða kynntar í næstu viku. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra varaði flokksmenn sína við viðbrögðum stjórnarandstöðunnar á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins um helgina.

Hann sagði að andstaðan yrði hörð og mikil og að reynt yrði að bregða fyrir þeim fæti í hverju einasta skrefi. Byrjað yrði að segja ósatt um hvað væri að kynna. „Ástæða fyrir því að ég fullyrði þetta er að ég hef séð þetta á undanförnum mánuðum hjá þessari nýju stjórnarandstöðu sem er svo hræðilega svekkt yfir niðurstöðum kosninganna að þau bara geta ekki sætt sig við raunveruleikann og eru þess vegna tiltölulega ófeimin, ósvífin jafnvel, við að segja hreinlega ósatt. Við höfum rekið okkur á þetta aftur og aftur, eitthvað er fullyrt sem bara stenst enga skoðun.“

Sigmundur Davíð segir að umræðan verði afvegaleidd og að reynt verði að dreifa athyglinni frá kjarna málsins. Engu að síður sé ekki ástæða til að hafa áhyggjur af þessum slag, fremur beri að hlakka til. „Vegna þess að við vitum að boðskapur okkar er réttur, afstaða okkar er rétt og þetta eru hlutir sem þurfa að gerast.“