Stjórnarandstaðan hefur ekki rætt um að koma fram með sameiginlegar kröfur á fundi með forsætisráðherra klukkan eitt, segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. Þó segist Birgitta vilja fá ákveðna dagsetningu alþingiskosninga í haust.
Birgitta segir afar hæpið að unnt verði að ljúka við þann málalista sem sagt var frá í fréttum RÚV á þriðjudag. Sá listi sé langur og mörg málin stór og flókin. Birgitta segir að fyrir sitt leyti gæti hún fallist á frumvarp um afnám hafta, útlendingalög, húsnæðismál og geðheilbrigðisstefnu.
Almannatryggingafrumvarpið sé hins vegar þannig að hæpið sé að sátt náist um það. Hvorki náðist í formann Samfylkingarinnar né Vinstri grænna við vinnslu fréttarinnar.