Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Stjórnarandstaðan fundar með forsætisráðherra

12.04.2016 - 08:39
Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson - RÚV
Formenn stjórnarandstöðuflokkanna eiga fund með Sigurði Inga Jóhannssyni, forsætisráðherra, klukkan níu í forsætisráðuneytinu. Þetta staðfestir Benedikt Sigurðsson, aðstoðarmaður forsætisráðherrra. Hann segir fundinn vera hugsaðan til þess að vera í talsambandi við stjórnarandstöðuna sem hefur krafist þess að ríkisstjórnin upplýsi nákvæmlega hvenær eigi að boða til kosninga í haust.

Stjórnarflokkarnir sömdu um það þegar ný ríkisstjórn var mynduð að gengið yrði til kosninga í haust. Ekki liggur þó fyrir hvenær það verður - líklegast er þó að þær verði í september eða fyrri hluta október. Í síðasta lagi verður það 27. október.

Fyrsti „hefðbundni“ þingfundurinn verður í dag eftir að ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannsson tók til starfa. Klukkan 13:30 verður óundirbúinn fyrirspurnartíma þar sem til svara verða meðal annars forsætisráðherra.

Stjórnarandstaðan hefur krafið ríkisstjórna svara við því hvenær eigi að boða til kosninga. Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að það yrði eitt þeirra mála sem rætt yrði við forsætisráðherra á fundinum. Ekki náðist í aðra formenn stjórnarandstöðunnar fyrir fundinn.

Allir þingflokkar nema Sjálfstæðisflokkur funduðu í gær. Að loknum fundi þingflokks Framsóknarflokksins kom fram að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson væri kominn í ótímabundið leyfi en sæti hans tók Hjálmar Bogi Hafliðason. Nokkrir þingmenn, meðal annars Höskuldur Þórhallsson, höfðu lýst því yfir að þeir teldu rétt að Sigmundur segði af sér þingmennsku.

Sigmundur sendi félögum í Framsóknarflokknum bréf þar sem hann sakaði fréttamenn sænska ríkissjónvarpsins um að hafa hannað viðtal á fölskum forsendum til að láta sig líta sem verst út. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV