Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stjórn DNB krefst upplýsinga um Samherjamálið

16.11.2019 - 15:07
Olaug Svarva, stjórnarformaður DNB (2019)
 Mynd: DNB
Stjórn norska bankans DNB vill að yfirmenn bankans sjái til þess að viðskipti Samherja við bankann verði rannsökuð ofan í kjölinn.

Haft er eftir stjórnarformanninum, Oslaug Svarva, í norska viðskiptablaðinu Dagens Næringsliv að stjórnin hafi óskað eftir upplýsingum um málið á almennum stjórnarfundi í gær. Stjórnarmenn hafi þar fengið upplýsingar um stöðuna og yfirmenn bankans útskýrt til hvaða aðgerða ætti að grípa. Svarva segir að stjórnin eigi eftir að fylgja málinu vel eftir.

Fram kom í þætti Kveiks um Samherjaskjölin að greiðslur frá Kýpurfélögum Samherja til félags í Dúbaí hefðu komið af norskum bankareikningum. Fimmtán sinnum hefði fé verið millifært af reikningum Kýpurfélaganna í Noregi til Dúbaí-félagsins.

Svarva segir að það sé mikilvægt fyrir stjórnina að málið verði rannsakað ofan í kjölinn. Á fundinum hafi stjórnin verið fullvissuð um að gripið verði til allra nauðsynlegra ráðstafana til að komist verði til botns í málinu.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV