Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Stjóri Swansea vill 2-3 leikmenn í stað Gylfa

epa05716817 Swansea's manager Paul Clement arrives for the English Premier League soccer match between Swansea City and Arsenal FC at the Liberty Stadium in Swansea, Britain, 14 January 2017.  EPA/ALED LLYWELYN EDITORIAL USE ONLY. No use with
Paul Clement knattspyrnustjóri Swansea. Mynd:  - EPA

Stjóri Swansea vill 2-3 leikmenn í stað Gylfa

17.08.2017 - 13:32
Paul Clement knattspyrnustjóri velska félagsins Swansea City sem leikur í ensku úrvalsdeildinni sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag vegna leiks Swansea og Manchester United í deildinni um helgina. Eðlilega voru fyrstu spurningar blaðamanna um brotthvarf Gylfa Þórs Sigurðssonar, sem samdi við Everton í gær.

„Ég hef lagt upp allt fyrir liðið fyrir þessa leiktíð eins og við værum að missa Gylfa. Ég hef því rætt vel við leikmenn um stöðuna og allir voru einbeittir í leiknum á móti Southampton og verða það í leiknum á móti Manchester United um helgina,“ sagði Clement.

Trúir því að Swansea verði betra lið á eftir

Talið er að Everton hafi greitt Swansea 45 milljónir punda eða því sem nemur 6,3 milljörðum íslenskra króna fyrir Gylfa og Clement vonast til að fá þá summu í leikmannakaup. „Það er auðvitað mikil áskorun að fara inn í þetta tímabil án Gylfa. En ég vonast til þess að við getum fengið fleiri en einn leikmann inn í leikmannahópinn í stað Gylfa. En mögulega tvo eða þrjá leikmenn til að styrkja liðið.“

„Við trúum því að með það fé sem við höfum núna í leikmannakaup getum við styrkt liðið þannig að við verðum betra lið en við vorum áður,“ sagði Clement jafnframt, sem verða að teljast stór orð þar sem Gylfi var algjörlega með lið Swansea á herðum sér á síðustu leiktíð í úrvalsdeildinni.