Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Stingur upp á starfslaunasjóði blaðamanna

04.02.2017 - 14:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gunnar Smári Egilsson, útgefandi og annar ritstjóri Fréttatímans, leggur til að ríkið stofni starfslaunasjóð blaðamanna frekar en að styrkja einkafyrirtæki með þröngu eignarhaldi. Þetta kemur fram í bréfi sem hann hefur sent formanni nefndar sem á að skila tillögum um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Bréfið birtir Gunnar Smári í hópnum Fjölmiðlanördar á Facebook.

Gunnar Smári leggur út af starfslaunasjóði rithöfunda og segir þá styrki bæta hag allra sem koma að bókaútgáfu: rithöfunda, útgefanda, prentara og afgreiðslufólks í bókabúðum. Hann segir að vilji hið opinbera styrkja fjölmiðla sé þetta besta leiðin. Þannig megi styrkja frjálsa og óháða blaðamennsku með því að blaðamenn geti sótt um þriggja, sex, níu eða tólf mánaða laun til að vinna vinnu sína. Síðan yrði samkomulagsatriði blaðamanna og útgefenda um hvernig efnið yrði sett á markað - það yrði utan afskipta ríkisins. 

Í bréfi sínu segir Gunnar Smári að styrkir til útgefenda myndu leiða til meiri fábreytni, minni framleiðslu og myndi bera lakari árangur. Hann varar sérstaklega við því að ríkið styrki einkafyrirtæki í þröngu eignarhaldi. „Það væri kostuleg ráðstöfun að styrkja sérhagsmunahópa og fjársterk fyrirtæki og einstaklinga til að halda úti sínum áróðri.“ Hann segir að það sé líklega of seint að fara svipaða leið og á Norðurlöndum þar sem næststærsta og jafnvel þriðja stærsta blað á markaði fékk styrki. Sú leið hafi gagnast á Norðurlöndum á sínum tíma og hefði gagnast hérlendis á áttunda og níunda áratugnum þegar Morgunblaðið öðlaðist yfirburði yfir önnur blöð. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV