Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stingandi þjóðlagastemmur

Mynd: Ylja / Ylja

Stingandi þjóðlagastemmur

19.10.2018 - 16:19

Höfundar

Þjóðlagadúettinn Ylja fagnar tíu ára afmæli sínu með plötunni Dætur, hvar þjóðlagaarfur landsins er undir. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.

Guðný Gígja Skjaldardóttir og Bjartey Sveinsdóttir skipa Ylju sem fagnar tíu ára afmæli um þessar mundir. Þrjár plötur liggja nú eftir sveitina en samnefnd skífa, Ylja, kom út 2012 og svo kom platan Commotion út tveimur árum síðar. Ylja hefur á einhverjum tímum starfað sem hljómsveit (Smári Tarfur var t.d. hluti af henni í blábyrjun) en núna stilla þær stöllur sér fram sem tvíeyki. Platan Dætur er helguð íslenskum þjóðlögum, hér má heyra lög eins og „Einsetumaður einu sinni“, „Hættu að gráta hringaná“, „Grafskrift“ og „Bíum, bíum, bambaló“, lög sem við þekkjum öll. Á plötunni njóta þær svo liðsinnis þeirra Magnúsar Arnar Magnússonar (ásláttur), Arnar Eldjárn (rafgítar), Viktors Orra Árnasonar (strengir) og Guðmundar Óskars Guðmundssonar (bassi, píanó og fleira) en hann tók jafnframt upp plötuna og beitir svipuðum galdri og hann gerði á síðustu plötu Snorra Helgasonar, sem var þjóðlagaplata einnig. Þjóðfræðingurinn Pétur Húni lagði þá gjörva hönd á plóg við textavinnu og bókin sem fylgir henni er stútfull af fróðleik um þjóðlögin öll. Umslagshönnun var unnin af Bobby Breiðholt auk þess sem Bjartey sjálf sá um myndskreytingarnar.

Þjóðlög

Þessi skýri útgangspunktur plötunnar, að takast á við íslensk þjóðlög, gerir að verkum að þetta er heilsteyptasta og besta verk Ylju til þessa. Tvær fyrstu plöturnar bera á stundum með sér gleymanlega smíðar og visst reynsluleysi á köflum (eðlilega) þó að sterkar raddir þeirra Gígju og Bjarteyjar hafi verið ljósar tiltölulega snemma. Þessi plata gnæfir aftur á móti yfir þessum tveimur. Lög sem Þursar kynntu fyrir þjóðinni eru áberandi, „Einsetumaður einu sinni“ opnar plötuna en útsetningin er lágstemmd, söngraddirnar leiða stemninguna út í gegn og undir gárar gítar og slagverk. Áhrifaríkt og nakið, lögin eru flest strípuð og mann setur hljóðan er hlustað er. „Heyr himnasmiður“, sem er eina lagið hér sem er ekki þjóðlag (samið af Þorkatli Sigurbjörnssyni) er magnað. Frábær samsöngur, þar sem raddirnar vinna saman á einkar áhrifaríkan hátt. „Grafskrift“ tekur á sig gotablæ, verður svona rökkurþjóðlagatónlist (ég er að hugsa um „folk-noir“ söngkonur eins og Marissu Nadler, Mirel Wagner og Ninu Nastasiu) og hlutirnir verða enn myrkari á „Móðir mín í kví, kví“, hljóðmyndin svört og ógnandi, glæsilegur frágangur hjá Guðmundi og hans mönnum. Guðmundur er þó síst að mála sig út í horn, „Hættu að gráta hringaná“ er bjart og brosandi – í algerri andstöðu við innihald texta en gengur vel upp engu að síður. Þetta er sterk plata, frábærlega hljómandi og útsett, og söngur tvíeykisins í senn náinn og fagur. Þetta er að einhverju leyti nútímalegur búningur utan um þessi lög, en um leið er hann trúr inntaki þeirra allra og Ylja nær að dýrka upp áhrifamáttinn sem í þeim er falinn.

Fögnuður

Ég fagna því að yngri kynslóðir séu að leita í þjóðlagaarfinn og undanfarin misseri hafa komið út fínustu plötur af því taginu (Margt býr í þokunni eftir Snorra, þessi plata hér og plata Kjass sem út kom fyrir stuttu). Það er ekki hægt að tala um senu en mögulega erum við að færast nær bræðrum okkar og systrum í Færeyjum, hvar hefðin hefur alltaf verið nálægt yngri kynslóðum, miklu nær en tíðkast hefur hér á landi.