Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Stilltu sér upp með „Fokk ofbeldi“ húfur

05.02.2019 - 17:46
Mynd með færslu
 Mynd:
Tveir þingmenn Pírata gengu upp að ræðustól Alþingis síðdegis með „Fokk ofbeldi“ húfur á höfði. Þetta gerðu þau Björn Leví Gunnarsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir við upphaf ræðu Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, í umræðu um fimm ára samgönguáætlun.

Björn og Þórhildur Sunna gengu að ræðustólnum, stilltu sér upp örstutta stund við hlið hans og gengu síðan á braut. Bergþór brást ekki við framgöngu þeirra í ræðu sinni.

Bergþór Ólason sneri fyrr í mánuðinum aftur úr leyfi sem hann fór í eftir Klausturmálið. Hann var einn þeirra þingmanna sem höfðu sig mest frammi í umræðum það kvöld. Endurkoma Bergþórs og Gunnars Braga Sveinssonar, flokksbróður hans, á þing vakti deilur. Jafnframt vakti það deilur að Bergþór héldi áfram starfi sem formaður samgöngunefndar Alþingis. Þingmenn í nefndinni skiptust í tvennt þegar kom að atkvæðagreiðslu um hvort setja skyldi Bergþór af eða ekki.

Fokk ofbeldi húfurnar eru hannaðar og framleiddar fyrir UN Women. Í kynningu á vef íslenskrar landsnefndar UN Women segir: „Með því að kaupa Fokk Ofbeldi húfu tekur þú þátt í að lýsa upp myrkur kvenna og stúlkna sem þurft hafa að þola ofbeldi auk þess að lýsa bókstaflega upp skammdegið hér á landi í febrúar.“