Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Stígurinn sem við fylgjum

Mynd: EPA / EPA

Stígurinn sem við fylgjum

05.05.2017 - 15:53

Höfundar

Sigurbjörg Þrastardóttir er á ferðalagi, eins og þúsundir annarra ferðamanna, í hinni eilífu Róm. Hún velti fyrir sér ferðamannagerinu í borginni í pistil í Víðsjá.

Sigurbjörg Þrastardóttir skrifar:

Í skóbúð nokkurri í Róm er þessi tilvitnun letruð á spjald í glugganum, ásamt mynd af höfundinum: „Gangan gerir ráð fyrir því að ásýnd heimsins breytist með hverju skrefi og jafnframt að eitthvað breytist innra með okkur sjálfum.“ Höfundur tilvitnunarinnar er ítalski rithöfundurinn Italo Calvino, hann hefur komið áður við sögu hér á útiskónum, það á vel við, við erum á útiskónum og þannig skór eru einmitt til sölu í skóbúðinni sem er svona bókmenntalega þenkjandi. Maður er auðvitað ánægður með að sjá sneddí tilvitnun í góðan höfund í svona óvæntu samhengi, innan um útstillingar í búðarglugga, þetta er eins og ljóð í lauginni, list í almannarýminu … Ég varð svipað hissa um daginn þegar það brast skyndilega á með fyrirlestri um rússnesku skáldkonuna Önnu Achmatovu í miðjum raunveruleikaþætti í ítalska sjónvarpinu, hæfileikakeppni af melódramatískustu gerð, þættinum Amici, þar sem rithöfundurinn Roberto Saviano, höfundur skáldsögunnar Gómorru, stóð allt í einu aleinn á sviðinu og hvatti fólk til að haga sér vel á samfélagsmiðlum og lesa Önnu Achmatovu. Ég las seinna að áhorfið á þáttinn hefði verið í hámarki þegar innslag hans stóð yfir, þetta var ansi skrýtið samhengi en sennilega gott ef það hefur náð til einhverra hinna ungu eyrna við skjáinn.

Þúsund garðar í einum garði

Alla vega, í skóbúðinni blasir við þessi lína eftir Calvino, um að sjónarhornið breyti heiminum, og það á alltaf vel við – samt er gaman að huga þar líka að samhengi. Úr hvaða texta er þessi lína? Jú, hún er úr stuttri esseyju, eða smásögu, Calvinos sem heitir Þúsund garðar og segir frá japönskum lystigarði, eða tegarði, í Kyoto. Höfundurinn lýsir þar vandlega steinlögðum stíg sem liðast um Katsura-keisaragarðinn, hann lýsir því hvernig stígurinn er á einhvern undirfurðulegan hátt sjálft inntak garðsins, og hvernig fjarlægðin milli sléttra hellnanna er hárnákvæm fyrir mann á göngu og gerir það að verkum að hann gengur rólega og á jöfnum hraða. „Á meðan aðrir garðar í Kyoto eru hannaðir fyrir statíska íhugun, næst hin innri harmónía í þessum garði með því að ferðast eftir stígnum og horfa á landslagið breytast,“ segir þar.

Og á kunnuglegan, calvínóískan máta, er bent á að þar sem hvert skref gefur nýtt sjónarhorn á umhverfið; á runnann, ljóskerið, lækinn og brúna, birtast á göngunni þúsund ljósker, þúsund runnar, þúsund brýr – innbyrðis afstaða breytist líka með hverju skrefi og þess vegna breytir stígurinn garðinum í þúsund mismunandi garða. Þetta fer í nokkra viðbótarhringi, ég hleyp hér nokkuð yfir sögu, við bætast t.a.m. árstíðirnar, sem auka enn á fjölbreytina, en í lokin kemst Calvino samt að þeirri niðurstöðu að hvert skref gefi þrátt fyrir allt einungis eitt einasta sjónarhorn. Þannig að, ef maður slítur skref augnabliksins frá næsta skrefi á undan og næsta skrefi á eftir, er útsýnið bara á einn veg og þar með endanlegt, ekki óendanlegt. Þetta bjargar manni, segir Calvino, frá hinni yfirþyrmandi og svimandi hugmynd um óendanleikann, og þess vegna er kannski eins gott að hellurnar í keisaragarðinum séu bara 1716, endanleg tala og viðráðanleg.

Nú, þarna virðist manni höfundurinn kannski kominn í þversögn við sjálfan sig, en hann er snjall, hann kennir öðrum um, segir einfaldlega að þeir sem hönnuðu garðinn – því á bakvið japanskan keisaragarð eru vissulega hönnuðir, hvort sem þeir kallast landslagsarkitektar eða temeistarar – hafi búið á þennan hátt um hnútana. Þeir hafi með uppröðun stígsins rekið ráðin af gestinum, látið hann hafa ákveðið mörg afbrigði af útsýni, en ekki fleiri.

Sporgengill, svefngengill, sporgengill

Og þá kemur í ljós hvað þessi stutta tilvitnun úr texta Calvino á vel við í skóbúð í miðbæ Rómar. Þetta er lýsing á massatúrismanum sem hér blómstar betur en nokkurs staðar. „Allar leiðir liggja til Rómar“, „Róm var ekki byggð á einum degi“, „when in Rome do as the Romans do“… allar veraldarinnar klisjur telja ókunnugum trú um að hérna séu möguleikarnir, hér sé eilífðin og óendanleikinn, hér sé svo margt að sjá og gera að það sé yfirþyrmandi, frelsið sólskinsbaðandistórfenglegt.

En hvað gerist? Túristinn kemur til Rómar og það er búið að leggja fyrir hann hellu fyrir hellu fyrir hellu, þannig að hann gáir ekki að sér, gengur rólega og á jöfnum hraða á milli staðanna sem allir hinir ganga rólega og á jöfnum hraða. Hann gengur hringinn sinn í Pantheon, út á torg, inn eftir veitingastaðalínunni að Trevi-gosbrunninum þar sem vasaþjófarnir bíða eftir honum. Hann gengur, rólega og á jöfnum hraða, hringinn sinn í Kólosseum, í fallegum hlykk um Forum Romanum, út á Feneyjatorg og yfir götuna, undir svalir Mússólínis. Hann gengur samviskusamlega hringinn sinn á Campo de’ Fiori, stoppar við fáeina grænmetisbása, fær sér aperitivo á torginu, svo yfir á Piazza Navona.

Og sótdrukkinn af frelsinu sem hann heldur að hann hafi fangað með flugmiðanum til Rómar, gengur hann eins og í góðum svefni meðfram Vatíkanveggjunum, að innganginum, inn og út hinum megin, ef hann lifir af súrefnisleysið í Sixtínsku kapellunni, því á steinhellunni fyrir framan hann og á steinhellunni fyrir aftan hann er á sama hátt fólk sem í ferðafrelsi sínu þarf að taka sömu myndirnar frá sama sjónarhorninu – „gangan gerir ráð fyrir því að ásýnd heimsins breytist með hverju skrefi og jafnframt að eitthvað breytist innra með okkur sjálfum“ – þannig mæltist meistaranum og þessu viljum við trúa, þótt okkur fari að gruna að keisarinn að baki tímanum sé kannski með puttana í skipulaginu eftir allt saman. Hver þessi keisari er, og hvort hann er vinur eða falskur vinur, hvort hann er Hollywood eða TripAdvisor, er svo annað mál og það þarf hver og einn að finna út sjálfur, Italo Calvino gefur ekki svarið við því og temeistarinn í sögunni hans ekki heldur.

Sá er hins vegar, eins og temeistara er siður, með einfalt svar við flóknum spurningum, hann svarar með (óþolandi kúl) hæku, þannig að ég svara bara líka með hæku – það er ekki sama hækan og í frásögn Calvino, heldur þessi:

Höggmynd

Hreyfð

Hópmynd