Stíga ölduna líkt og ABBA eftir Eurovision

Mynd:  / 

Stíga ölduna líkt og ABBA eftir Eurovision

25.01.2019 - 16:01

Höfundar

Reykjavíkurdætur gerðu góða ferð til Hollands á dögunum þegar þeim hlotnaðist bæði MMETA verðlaunin og Public Choice verðlaunin á Eurosonic-hátíðinni í Groningen. Hlaðnar verðlaunagripum mættu þær í Stúdíó 12 og fluttu nokkur lög.

Reykjavíkurdætur hafa átt góðu gengi að fagna eftir síðasta ár en fyrir utan þær viðurkenningar sem þær hlutu nýverið hafa þær verið á faraldsfæti síðustu mánuði og heimsótt meðal annars fjölmargar tónlistarhátíðir þar sem fólk tekur undir með íslensku rapptextunum. Með misjöfnum árangri. Reykjavíkurdætur eru að jafnaði tíu talsins en um þessar mundir eru fjölmargar þeirra búsettar í útlöndum. Hljómsveitin er eins konar hattur yfir  hæfileikakonur sem koma einnig fram saman í öðrum einingum, undir öðrum nöfnum.

Það eru því aðeins fimm Reykjavíkurdætur sem mættar eru í Stúdíó 12, það eru þær Þura Stína, Þuríður Blær, Steinunn, Þórdís Björk og plötusnældan Karítas. „Já, hinar búa nær allar í útlöndum þessa stundina nema Ragga Hólm sem er bara í fríi sem stendur. Hún er á einhverri vísindaráðstefnu, ég sá það á Insta-story og mér fannst það frekar nett,“ segir Steinunn en þær sem eru fjarstaddar í dag eru þær Salka Valsdóttir og Katrín Helga Andrésdóttir sem báðar búa í Berlín, Anna Tara sem býr í Barcelona og Steiney sem er nýflutt til L.A. „Kolfinna er líka í hljómsveitinni en hún er ólétt og í barneignarleyfi. Hún kemur ekki fram með okkur um þessar mundir en hún sér um sjónrænu hliðina á tónleikum okkar,“ útskýrir Steinunn.

Óli Palli segir að hann hafi séð til þeirra í miklu stuði á Eurosonic-hátíðinni á dögunum og ekki verði um villst þegar sagt er að þær séu eitt heitasta rappatriðið í Evrópu um þessar mundir en Óli spyr hví þær séu ekki með verðlaunagripina með sér. „Við höfum verið heitasta rappband Evrópu lengi vel sko,“ áréttir Blær og tekur ekki undir með Þórdísi Björk sem segir verðlaunagripinn afar ljótan. „Nei, verðlaunagripurinn var ógeðslega flottur. Mér finnst það alla vega, enda fæ ég að geyma hann,“ segir Blær en Steinunn útskýrir að dregið hafi verið um hver mætti hýsa verðlaunagripinn fyrst.

Það vakti athygli Óla Palla að á Eurosonic-hátíðinni söng allur salurinn með í laginu Dugleg. „Við reynum alltaf að fá fólk með og það er ótrúlega gaman. Það er pínu erfitt samt að reyna að útskýra hvað dugleg þýðir. Það er ekki hægt að segja beint hard working eða good girl. Þetta er svona hrós en samt niðrandi hrós. Skemmtilegt orð. Þetta er eitthvað sem þú notar aðallega um stelpur eða stráka sem eru svona undir fimm ára aldri. Þetta er eins og þegar þú ert með barn í ungbarnasundi og það nær að kafa, þá segir maður Ohh, dugleg,“ segir Þuríður Blær um orðið dugleg og hvernig ýmis ummælum gagnvart kynbundnu misrétti er beint að konum í þá átt að konur þurfi bara að vera duglegri.

Rétt fyrir áramót kom út platan Shrimpcocktail en hljómsveitin hefur þegar hafið undirbúning fyrir næstu plötu. „Við erum að vinna í nýrri plötu núna en Shrimpcocktail er svona meira mixteip, samansafn af þeim lögum sem við gáfum út á síðasta ári. Þetta var því ekki hugsað sem svona konkret plata. Ný plata er þegar komin í vinnslu og verður tekin upp í Berlín,“ útskýrir Þura Stína. Það er ljóst að mikill meðbyr er með Reykjavíkurdætrum og mikill hugur í þeim að nýta hann sem best. „Við ætlum að stíga þessa öldu rétt, eins og ABBA þegar þær unnu Eurovision,“ segir Þuríður Blær og þær taka allr undir með Blævi og segja að verðlaunin hjálpi þeim vitanlega í næstu skrefum og þá einkum umboðsfólki þeirra sem hafa verðlaunin í farteskinu í kynningum á Reykjavíkurdætrum úti í heimi.

Reykjavíkurdætur tóku lögin Dugleg eftir Blævi og Steinunni, Hvað er málið eftir Þuru Stínu, Steinunni og Kolfinnu og loks Ekkert drama eftir Röggu Holm, Þuru Stínu, Kolfinnu Nikulásdóttur, Steinunni Jónsdóttur, Þuríður Blævi Jóhannsdóttur og Svölu Björgvinsdóttur. Leynigestur steig á svið í síðasta laginu, engin önnur en Svala Björgvins. Öll lögin þrjú má finna á fyrrgreindu mixteipi, Shrimpcocktail.

Ólafur Páll Gunnarsson tók á móti Reykjavíkurdætrum í Stúdíói 12, Hrafnkell Sigurðsson annaðist hljóðupptökur og Gísli Berg sá um myndstjórn.

Tengdar fréttir

Tónlist

Heimurinn þarf á okkur að halda

Tónlist

Reykjavíkurdætur hljóta nýju MMETA verðlaunin

Tónlist

Reykjavíkurdætur tilnefndar til verðlauna ESB