Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Stífur útsynningur í dag – röskun á millilandaflugi

23.01.2020 - 07:04
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - RÚV
Í dag verður stífur útsynningur, 15-25 m/s, á öllu landinu með éljagangi um landið vestanvert en léttskýjað austan til. Gular viðvaranir eru í gildi á öllum spásvæðum á vesturhelmingi landsins vegna hríðar og ekki loku fyrir það skotið að ferðalög milli landshluta geti orðið erfið á því svæði. Icelandair hefur fellt niður 25 ferðir og slæmt ferðaveður er á Norðurlandi, samkvæmt vef Vegagerðarinnar.

Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands segir að í nótt dragi hægt úr vindi og morgundagurinn heilsi flestum landsmönnum með hægri breytilegri átt. Stöku él verða þó vestanlands fram undir hádegi en birtir til er líður á daginn.

Eftir hádegi verður orðið hæglætisveður á öllu landinu en það verður þó skammvinn stund milli stríða því von er á lægð með stífa austanátt annað kvöld með snjókomu í fyrstu en síðar slyddu og rigningu með suður- og vesturströndinni þar sem hitastig nær að rísa yfir frostmark.

Helgarveðrið lítur þó þokkalega út, fremur hægur vindur og stöku él í
öllum landshlutum

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV