Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Stendur við hækkun á ferðaþjónustuna

21.05.2017 - 18:10
Mynd með færslu
Ferðamenn við Seljalandsfoss. Mynd: RÚV
Komugjald þyrfti að verða sex til sjö þúsund krónur til að veg upp á móti því að hætt yrði við hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna segir fjármálaráðherra. Samtök ferðaþjónustunnar segja fjölda erlendra ferðamanna ofmetinn.

Stjórnarliðar í fjárlaganefnd Alþingis lögðu á dögunum til að fyrirhugaðri hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna verði frestað. Á móti ætti að skoða kosti og galla komugjalds. Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra segir vandséð að með því næðust þrjú markmið virðisaukaskattshækkunarinnar. Hún eigi að slá á styrkingu krónunnar, koma ferðaþjónustunni í sama skattaumhverfi og önnur fyrirtæki og afla ríkissjóði tekna. „Ef við tökum komugjöldin, þá þyrftu þau að vera býsna há til þess að afla sambærilegra tekna, kannski sex, sjö þúsund kall á hvern miða.“

Mynd: Skjáskot / RÚV

Ferðaþjónustan fagnar hins vegar tillögu nefndarinnar. „Í raun og veru er það viðurkenning á því að það þurfi að greina hlutina betur áður en farið er í jafn stórkostlega ákvörðunartöku eins og þessi virðisaukaskattshækkun felur í sér,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Fjármálaráðherra stendur þó við áform sín um að hækka virðisaukaskattinn. „Ég held að það séu öll sanngirnisrök sem hnigi að því að það verði sami virðisaukaskattur á ferðaþjónustu eins og öðrum greinum hér innanlands. Ertu sannfærður um að það sé þingmeirihluti fyrir þessu? Við förum náttúrulega yfir þetta með þeim þingmönnum sem eru að gera tillögur núna og við skulum sjá hvort það verði ekki þingmeirihluti fyrir þessu.“

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV

Helga segir hækkunina meðal annars byggða á misskilningi. Fjöldi erlendra ferðamanna sé ofmetinn vegna þess að meðtaldir séu þeir sem millilenda á Keflavíkurflugvelli en fari aldrei út úr flugstöðinni. „Í raun og veru, þróuð ferðaþjónustulönd eru ekki að horfa á fjölda ferðamanna. Þau eru að horfa á gistinætur, fjölda gistinátta, afkomu í greininni, þau eru að horfa á dreifingu um landið og svo framvegis.“

Fjallað var um talningu ferðamanna á vefnum Túristi fyrir helgi. Þar kom fram meðal annars fram að ef farþegi færi um Keflavíkurflugvöll með tveimur flugfélögum væri hann talinn sem ferðamaður þegar hann sækti töskur sínar úr flugi með einu flugfélagi og innritaði sig í flug með öðru flugfélagi þó hann færi aldrei út af flugvellinum. Þá hefði fjölgun flugfélaga sem fljúga um Ísland stóraukið framboð þeirra ferðamöguleika sem ferðamenn gætu valið úr. „Þessir farþegar eru allir taldir sem erlendir ferðamenn á Íslandi jafnvel þó þeir hafi aldrei farið út úr Leifsstöð. Og það eru vísbendingar um að sífellt fleiri útlendingar séu taldir sem ferðamenn þó þeir stoppi ekki hér yfir nótt,“ segir í umfjöllun Túrista.

Fréttin hefur verið uppfærð.