Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Stendur fyrir hið nýja Ísland

Mynd: RÚV / RÚV
„Forsetinn sem verður valinn mun endurspegla hvar þjóðin er stödd í þroska. Ef við erum föst í feðravaldinu, forræðishyggjunni, bjargvættarhugsunarhættinum og fórnarlömbunum, þá verður einhver karl kosinn. En ef við ætlum að fara inn í hið nýja Ísland, sem ég stend fyrir, þessi nýju gildi þar sem við byggjum á jafnrétti, jöfnuði, gagnsæi, réttlæti, samkennd og samvinnu, þá verð ég kosin, þetta verður bara eins og Ísland er tilbúið til.“ Þetta segir Hildur Þórðardóttir, forsetaframbjóðandi.

Hildur segir menn eins og Ólaf og Davíð vera tákn forræðishyggjunnar og þess að stjórna með því að ala á ótta hjá fólki. Hún sé ákveðið mótvægi við þá.  

Hver er Hildur Þórðardóttir?

Hildur Þórðardóttir er 48 ára. Hún er þjóðfræðingur að mennt en hefur undanfarin ár starfað sem rithöfundur, fengist við heilun og gefið út bækur; sjálfstyrkingarbækur og eina skáldsögu. Þá hyggst hún gefa út bók samhliða framboðinu, sem kemur til með að bera titilinn Framtið Íslands. Áður vann hún sem skrifstofustjóri á lögmannsstofu. Hún sat í stjórn Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands 2010-2012 og hefur einnig sinnt sjálfboðaliðastörfum fyrir Hugarafl og Samhjálp. Hildur býr í Reykjavík, hún er ógift, móðir tveggja unglingspilta. Hildur leggur áherslu á nýja stjórnarskrá og styður aðskilnað framkvæmdavalds og löggjafarvalds. Hún vill að forsetinn sé sameiningartákn, andlegur leiðtogi og glæsilegur fulltrúi þjóðarinnar út á við. 

Hægt er að hlýða á viðtalið við Hildi í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.