Steinunn Þóra og Haraldur nýir varaforsetar

22.01.2019 - 16:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, og Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, voru kosin sem sérstakir auka varaforsetar Alþingis í dag. Þau eru meðal þeirra fáu þingmanna sem hafa ekki lýst skoðun inni opinberlega á ummælum þingmannanna sex sem heyrast á Klausturupptökunum svokölluðu. Þau eru kosin tímabundið til þess að fjalla um Klausturmálið og koma því í farveg.

Þingmenn Miðflokksins og Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, sem reknir voru úr Flokki fólksins í kjölfar þess að Klausturupptökurnar voru gerðar opinberar, báru Steingrím J. Sigfússon, forseta Alþingis, þungum sökum á Alþingi í dag.

Nánast fyndin áform ef þau væru ekki sorgleg

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði þá leið sem Steingrímur hefur ákveðið að fara vera ólöglega og að hún stæðist ekki stjórnarskrá. „Allt annað skal víkja, hvort sem það er sanngirni, réttur eða lög, svo að hann nái þeirri niðurstöðu sem hann hefur beðið um,“ sagði Sigmundur Davíð.

„Nú hefur forseti lýst hreint dæmalausum áformum sínum. Í þeim vandræðagangi sem hann sjálfur hefur sett þetta þing í með málsmeðferð sinni,“ sagði Sigmundur Davíð enn fremur og lýsti þeirri leið sem ákveðið var að fara sem fráleitri. „Hún er hreint út sagt fráleit, nánast fyndin ef hún væri ekki sorgleg, því hún varðar heiður þingsins.“

Málið minni á landsdómsmálið

Ólafur Ísleifsson, áður þingmaður Flokks fólksins og nú óháður, vildi fá að vita hvað það væri sem hann sagði á fundi sexmenninganna á Klaustri sem varð til þess að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hafi beðið þjóðina afsökunar. „Nákvæmlega hvað var það sem ég lét mér um munn fara sem kallaði á þessa afsökunarbeiðni?“

Karl Gauti Hjaltason sem einnig er óháður þingmaður eftir að hafa verið vísað úr Flokki fólksins sagði málið vera hlægilegt og að forseti Alþingis sem búinn væri að lýsa vanhæfi sínu væri þegar búinn að skýra fyrir nýjum varaforsetum þingsins hver niðurstaða þeirra eigi að vera. „Afgreiðslan á þessu máli er hið hlægilegasta mál. Þetta minnir óþyrmilega á landsdómsmálið hvað varðar pólitískan blæ. Nema að nú eru leikendur með Vinstri grænum sjálfur Sjálfstæðisflokkur Íslands!“

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingkona Miðflokksins, sagðist ekki geta annað en tekið til máls þó að henni þætti það óþægilegt. „Við höfum ekki fengið neinar upplýsingar eða haft aðkomu að því hvernig málinu á að vinda fram. Samt er búið að ákveða það, setja upp tímalínu sem segir okkur að þetta eigi að vera búið í apríl. Þetta er ekkert annað en valdníðsla.“

Réttarríkið að veði

Varaþingmenn Miðflokksmannanna Gunnars Braga Sveinssonar og Bergþórs Ólasonar, þau Una María Óskarsdóttir og Jón Þór Þorvaldsson, tóku bæði til máls og lýstu fuðu sinni á þessum málatilbúnaði. „Mér finnst þetta gerræðisleg ákvörðun. Ég spyr: Finnst þingmönnum þetta í lagi? Þetta mál er komið í algert öngstræti,“ sagði Una María. Jón Þór kvað fastara að orði og sagði réttarríkið vera undir í þessu máli. „Ef það á að beita 94. grein þingskapalaga svona, hvað er þá næst? Er þá búið að breyta réttarríkinu í ráðstjórnarríki? Mér finnst að við ættum að hugsa aðeins hvað er undir hérna: Það er réttarríkið,“ sagði Jón Þór.

Sigurður Páll Jónsson, einn þeirra þingmanna Miðflokksins sem sátu ekki að sumbli á Klaustri, sagðist telja að málið hafi verið til lykta leitt þegar forsætisnefnd lýsti sig vanhæfa í málinu. „Ég kem hérna upp til að gera mig vanhæfan í þessu máli. Ég er einn af þessum þingmönnum sem var talinn hæfur en hér með orðinn vanhæfur vegna þess að ég er búinn að taka til máls í þessu meinta máli. Þetta mál er búið. Þegar forsætisnefnd Alþingis lýsti sig vanhæfa þá var málið búið í mínum huga.“