Steingrími og Ingu varð heitt í hamsi

04.06.2019 - 18:29
Mynd: Skjáskot / RÚV
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hækkuðu mjög róminn þegar þau tókust á um krónu fyrir krónu skerðingar á Alþingi í dag. Inga sagði að vinstristjórnin sem var við völd 2009 til 2013 hefði sett slíka skerðingu á til að láta þá verst settu taka þátt í kostnaði við hrunið. Steingrímur sagði þetta alrangt og að slíkar skerðingar hefðu verið á nýjum greiðslur til að tryggja að þær rynnu til þeirra sem mest þyrftu á þeim að halda.

Skammaði vinstristjórn fyrir krónu á móti krónu skerðingu

„Hvers vegna króna á móti krónu skerðing? Jú, í kjölfarið á hruninu þá var talin ástæða til þess að seilast í vasa þeirra sem höllustum fæti stóðu í samfélaginu. Þeir áttu líka að taka þátt í því áfalli sem þjóðin varð fyrir,“ sagði Inga Sæland á þingfundi í dag í umræðu um frumvarp félagsmálaráðherra. Samkvæmt því verður skerðing á ákveðna bótaflokka 65 prósent í stað krónu fyrir krónu. „Það var í höndum vinstriflokkanna, velferðarstjórnarinnar, sem króna á móti krónu skerðingin var sett á. Hér hefur hún verið með aðstoð allra hinna. Hér hefur hún verið í tíu ár.“

Bættu stöðu þeirra lakast settu

Steingrímur J. Sigfússon sat í stóli forseta þegar Inga hóf ræðu sína. Hann kallaði fyrsta varaforseta til og fór í andsvör við þingmanninn. „Þó ég sé hér forseti og blandi mér ógjarnan í pólitískar umræður þá sit ég ekki þegjandi undir rangfærslun og óhróðri af því tagi sem háttvirtur þingmaður Inga Sæland hafði um ríkisstjórn okkar Jóhönnu Sigurðardóttur. Það er rangt að sú ríkisstjórn hafi tekið upp krónu á móti krónu skerðingu. Það sem er rétt er er að Jóhanna Sigurðardóttir sem félagsmálaráðherra kom á sérstakri uppbót á lífeyri vegna framfærslu. Það þótti þá stórkostleg réttarbót og þar var verið að bæta kjör þess hóps sem lakast var settur og fáir virðast muna eftir í dag.“ 

„Menn þurfa aðeins að kunna hlutina áður en þeir taka upp í sig stór orð,“ sagði Steingrímur. Hann hækkaði róminn og sló í borðið til áhersluauka í ræðu sinni. Í lok andsvars Steingríms mátti heyra nokkra þingmenn segja „heyr, heyr“ við ræðu hans.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Steingrímur var mjög ósáttur við orð Ingu.

Krafði Steingrím skýringa

Inga gaf ekkert og hækkaði róminn á móti þegar hún svaraði Steingrími. „Hann gæti þá væntanlega upplýst mig um það hvenær króna á móti krónu skerðingu var komið á og af hverjum. Það væri kannski ánægjulegt, fyrst að háttvirtur þingmaður er svona með það á hreinu að það sem ég er að lesa hér sé alrangt, þá þætti mér vænt um að hann leiðrétti það hvenær krónu á móti krónu skerðingu var komið á og af hverjum.“

Steingrímur sagði að það hefði komið fram í máli sínu að upphæðin hefði verið tekjutengd þegar greiðslunum var bætt inn í kerfið. „En hún var viðbótarfjármunir inn í kerfið til að aðstoða lakasta hluta hópsins.“ Þetta hefði líka gerst með greiðslur aldraðra. Uppbót hefði verið sett inn í kerfið til að aðstaða þá sem voru verst settir. Hann spurði hvort að allir ættu að hafa óskertar greiðslur úr almannatryggingakerfinu óháð því hversu háar tekjur þeir hefðu.

Steingrímur sagðist styðja frumvarpið. „En ég spyr mig samt, ef við erum að ráðstafa 2,9 milljörðum eða fjórum, hefði eitthvað átt að fara til allra lakast setta hópsins? Því þetta er ekki hann, þetta er ekki hann.“

Velti því upp hvort Steingrímur væri heyrnarskertur

„Það er alveg greinilegt að það kom þá fram að það voru þeir [vinstristjórnin - innskot fréttamanns] sem settu á þessa skerðingu til þess þá að reyna að koma í veg fyrir það væntanlega að viðkomandi héldu áfram að vinna,“ sagði Inga. „Ef að háttvirtur þingmaður hefur ekki tekið eftir því að ég stend hér sem málsvari þeirra sem höllustum fæti standa þá veit ég ekki hvort það sé út af því að háttvirtur þingmaður sé orðinn heyrnarskertur þó ég sé þá sjónlaus.“

Inga sagði ekki á móti mælt að þeim sem væru með lægstu bætur og gætu mögulega farið út á vinnumarkaðinn væri haldið inni með skerðingunum. Hún sagðist eðli málsins samkvæmt greiða atkvæði „með þessari hungurlús“. „Auðvitað hefur ekki verið gert neitt fyrir hina og það hefur líka augljóslega komið fram í þessum ræðustóli. Þeir sem eru með 212 þúsund útborgað á mánuði fá ekki neitt fyrir lögbundna leiðréttingu sína 1. janúar á næsta ári.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi