Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Stefnuljósanotkun verulega ábótavant

20.07.2015 - 22:00
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Rúmlega helmingur ökumanna, eða 53%, gáfu ekki stefnuljós þegar þeir óku út úr hringtorgi í Hafnarfirði í morgun. 1.136 bílar voru taldir. Í sambærilegri könnun sem gerð var fyrir tveimur árum var árangurinn enn verri.

Könnunin var gerð á hringtorginu á Fjarðarhrauni til móts við Flata-, Bæjar- og Garðahraun. VÍS framkvæmdi hana.

Þótt þessi frammistaða ökumanna sé slök virðist stefnuljósanotkun ökumanna hafa aukist talsvert á síðustu tveimur árum. Þá gerði VÍS sambærilega könnun þar sem 66% ökumanna notuðu ekki stefnuljós.

Í netkönnun Samgöngustofu frá árinu 2013 sögðu 77% þátttakenda að stefnuljósaleysi væri sá hlutur sem ylli þeim mestri truflun eða álagi í akstri. Það skýtur því nokkuð skökku við að ríflega helmingur ökumanna noti ekki stefnuljós úti í umferðinni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá VÍS.

Þar segir að eitt meginhlutverk stefnuljósa sé að vera öðrum vegfarendum til leiðbeiningar og að notkun þeirra liðki fyrir flæði umferðar. Einnig minnki rétt notkun stefnuljósa hættuna á slysum. Þetta eigi sérstaklega við í hringtorgum, þegar verið er að skipta um akrein, taka fram úr eða beygja út af vegi.

Katrín Johnson
Fréttastofa RÚV