Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Stefnt í sömu átt og á bóluárum fyrir hrun

16.12.2017 - 12:39
Mynd með færslu
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Mynd: RÚV
Fjármálaráðherra segir það óumdeilt að hækkun frítekjumarks auki lífsgæði eldri borgara sem geti unnið og lægstar hafi tekjurnar. Fyrrverandi fjármálaráðherra segir skýrar vísbendingar um að stefnt sé í sömu átt og á bóluárunum fyrir hrun.

Þingfundur stendur nú á Alþingi. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra mælti við upphaf þingfundar fyrir bandorminum sem er breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga næsta árs. Samkvæmt honum hækkar fjármagnstekjuskattur, kolefnisgjald hækkar um fimmtíu prósent, útvarpsgjald og gjald í framkvæmdasjóð aldraðra hækka og ýmsar verðlagsuppfærslur eru í honum. Flest af þessu er í stjórnarsáttmálanum og líka hækkun frítekjumarks aldraðra. 

Eykur möguleika aldraðra til að bæta kjör sín

„Óumdeilt er að áframhaldandi vinna eftir að ellilífeyrisaldri er náð eykur möguleika aldraðra að bæta kjör sín einkum þeirra sem lægstar hafa tekjurnar og þar með talið lægstar lífeyristekjur því er lagt til að ellilífeyrisþegar skuli hafa eitt hundrað þúsund króna sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna í mánuði,“ sagði fjármálaráðherra.

Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi fjármálaráðherra, var á öndverðri skoðun. „Það eru skýrar vísbendingar um að við séum að stefna í sömu átt og á bóluárunum fyrir hrun ef við horfum til dæmis á eignamyndun sem er á fárra höndum og hækkunar á fjármagnstekjuskatti.“

„Þess vegna mælir þessi kona sem hér stendur með 300 þúsund króna lágmarksframfærslu án þess að af því séu teknir skattar og með hagræðingu inní skattakerfinu og með öllum þessum útreikningum og fínheitum sem hér eru í boði og sérfræðingum sem hér eru að starfa þá ætti það að vera létt og leikandi létt,“ sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.

Mörg mál á dagskrá

Umræðan stendur enn en á dagskrá fundarins í dag er meðal annars frumvarp dómsmálaráðherra um dvalarleyfi útlendinga vegna iðnnáms og frumvörp félagsmálaráðherra vegna þjónustu við fatlað fólks. Fyrstu umræðu um fjárlagafrumvarp næsta árs lauk hér í gærkvöld, fjárlaganefnd kom saman til fundar í morgun og hún fundar aftur síðar í dag. 

Ríkisstjórnin fundaði í morgun þar sem meðal annars voru samþykktar siðareglur ráðherra og frumvarp til fjáraukalaga og forseti Alþingis fundar með formönnum þingflokka klukkan eitt svo það er viðbúið að þingfundir verði annasamir til áramóta.