Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stefnt fyrir meiðyrði vegna Hlíðamálsins

28.09.2018 - 10:31
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Þorsteinsson - RÚV
Konu, búsett í Sviss, hefur verið stefnt af mönnunum tveimur sem voru sakaðir um kynferðisbrot í Hlíðunum fyrir þremur árum. Þess er krafist að ummæli í færslum sem konan birti bæði á Twitter og Facebook verði dæmd dauð og ómerk en færslurnar birtust þann 9. nóvember. Mennirnir krefjast þess að konunni verði gert að greiða sér 2 milljónir hvorum um sig.

Stefnan birtist í Lögbirtingablaðinu í dag.

Þar kemur fram að konunni hafi verið boðið að ljúka málinu utan réttar með kröfubréfi þann 27. apríl. Því bréfi hafi ekki verið svarað og því neyðist mennirnir til að höfða dómsmál til að verja æru sína og friðhelgi einkalífsins. 

Í stefnunni er konan sögð hafa birt upplýsingar um nöfn mannanna á Facebook-svæði. Þá er hún sögð hafa skrifað og birt ummæli á Facebook þar sem hún sagðist vera búin að birta upplýsingar um mennina og meint kynferðisbrot þeirra á notendasvæði sínu. Og að hún væri búin að vara tvo vini sína við þeim sem hefðu fjarlægt þá af vinalista sínum á Facebook. 

Fram kemur í stefnunni að í ummælunum felist ásakanir um að mennirnir hafi gerst sekir um ítrekuð og alvarleg hegningarlagabrot. Þau séu öll ósannur uppspuni og til þess falin að meiða æru þeirra. Þau séu óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta mennina. Hagsmunir þeirra af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk séu því miklir. 

Þá segir í stefnunni að ljóst sé að virðing mannanna hafi beðið hnekki sem og æra þeirra og persóna.  Mennirnir hafi óttast um líf sitt vegna múgæsingsins sem umfjöllunin um málið hafi skapast og hrökklast úr landi þar sem þeir hafi dvalið meira og minna næstu árin.  Konan hafi tekið þátt í að dreifa nöfnum og myndum af mönnunum sem deilt hafi verið mörg þúsund sinnum á samfélagsmiðlum þar sem þeir hafi verið úthrópaðir nauðgarar og þeim hótað líkamsmeiðingum og lífláti. Konan hafi skrifað um þá á ensku sem gerði það að verkum að upplýsingar um þá náðu til enn fleiri en ella hefði verið.

Fram kom á vef Stundarinnar í síðustu viku að fjórum hefði verið stefnt fyrir meiðyrði vegna Hlíðamálsins en lögmaður mannanna, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, vildi ekki tjá sig um málið.  Í október á síðasta ári var fjórum fréttamönnum 365 gert að greiða mönnunum miskabætur vegna frétta um Hlíðamálið. Í stefnu vegna málsins var sagt að forsíða Fréttablaðsins þann 9. nóvember árið 2015 þar sem fyrirsögnin var „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“  og umfjöllun 365 miðla hafi orðið til þess að allt hafi farið á annan endann. Samfélagsmiðlar hafi logað og boðað hafi verið til mótmæla við lögreglustöðina á Hverfisgötu.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV