Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stefnir í yfir fjörutíu stiga hita í París

24.06.2019 - 14:26
epa06932925 Jets of water are propelled into the fountains of the Trocadero square in front of the Eiffel Tower in Paris, France, 07 August 2018. In France, 70 departments are placed in vigilance heat and thunderstorms alert.  EPA-EFE/CAROLINE BLUMBERG
 Mynd: EPA
Hitamet gætu fallið víða í Evrópu í vikunni ef spár um hitabylgju ganga eftir. Búist er við að hiti fari upp í 35 gráður í norðurhluta Frakklands í dag og að hitastigið hækki upp í um fjörutíu gráður þegar líður á vikuna. Sökum rakastigs má gera ráð fyrir því að raunhitinn verði um 47 gráður. Franska veðurstofan spáir því að hitinn fari ekki undir tuttugu gráður að nóttu til.

Viðbragsáætlun hefur verið sett af stað í París en bráðabirgðagosbrunnar hafa verið settir upp og sundlaugar verða opnar fram eftir kvöldi. Þá hyggjast yfirvöld dreifa vatni til viðkvæmra hópa eins og aldraðra, halda almenningsgörðum opnum lengur og skilgreina sérstaklega svæði þar sem hægt er að kæla sig. Frakkar muna vel eftir hitabylgjunni í ágúst árið 2003 en þá létust um fimmtán þúsund manns af völdum hita. 

Hitabylgjan nær einnig til Þýskalands, Sviss og Belgíu en búist er við því að hitamet fyrir júnímánuð falli víða. Gert er ráð fyrir yfir 35 stiga hita á Spáni og að hitinn fari sums staðar yfir fjörutíu gráður. Þá má búast við um 35 stiga hita í Berlín, Hamborg, Frankfurt og fleiri borgum í Þýskalandi.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV