Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Stefnir í verkfall hjá Sinfóníunni

30.09.2011 - 18:49
Tónlistarmenn í Sinfóníuhljómsveit Íslands hafa verið án kjarasamnings í þrjátíu mánuði. Á annan tug samningafunda hafa ekki skilað árangri og því munu þeir í næstu viku kjósa um verkfallsboðun.

Hljóðfæraleikarar í Sinfóníuhljómsveit Íslands finna vel fyrir niðurskurði og að lítið er í ríkiskassanum þessa dagana.


Í hljómsveitinni eru 85 hljóðfæraleikarar - flestir með fimm ára háskólanám og mikla reynslu. Meðallaun þeirra eru 348 þúsund krónur á mánuði. Inni í þeirri upphæð er kvöld og helgarvinna, ferðalög, æfingar og fleira. Þetta segir aðeins hálfa söguna því almennur hljóðfæraleikari nær ekki þessari upphæð -  útborguð laun þeirra nema um 219 þúsund krónum á mánuði.


Og þessu vill stéttarfélag þeirra - starfsmannafélag Sinfóníuhljómsveitarinnar - breyta. Félagið bendir á að laun hljóðfæraleikara hafi enganvegin fylgt almennri launaþróun né launaþróun félagsmanna innan BHB. Því krefjast þeir nú ríflega 30 prósenta hækkunar. Því hafnar ríkið alfarið. Og nú er þolinmæði tónlistarmannanna þrotin. Efnt verður til atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun í næstu viku - og allt stefnir í að hljóðfæraleikarar í Sinfóníuhljómsveitinni leggi niður störf í nóvember og tónlist eins og þessi hætti þá að hljóma - tímabundið að minnsta kosti.