Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stefna kjaradeilunni í „alvarlegan hnút“

28.10.2019 - 20:22
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins segir að kjaradeilan við Samband íslenskra sveitarfélaga sé komin í alvarlegan hnút. Sveitarfélögin vísuðu deilunni aftur til ríkissáttasemjara í dag. 

Í dag vísaði samninganefnd sveitarfélaganna deilunni aftur í karphúsið vegna ályktunar Starfsgreinasambandsins í tilefni kvennafrídagsins. Þar sagði að ófaglærðum konum væri sýnd lítilsvirðing í viðræðunum. 

Sveitarfélögin segja þetta ósannindi og trúnaðarbrest. Þau telja útilokað að frekari árangur náist í viðræðunum án verkstjórnar ríkissáttasemjara. 

Framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins segir ályktunin standi. „Við erum afar hissa. Við töldum okkur vera að fara á samningafund í vikunni. Ég held að þau séu með þessu útspili sínu að stefna þessari deilu í mjög alvarlegan hnút sem er þá alfarið á þeirra ábyrgð,“ segir Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins.

Formaður samninganefndar sveitarfélaganna hafnaði viðtali. Hátt í átta þúsund félagar í Starfsgreinasambandinu starfa hjá sveitarfélögum víða um land. Konur eru meirihluti þeirra. „Það er farið að styttast mjög þráðurinn í mínu fólki um land allt og þessari framkomu sem samninganefndin sýnir. Ég held að sveitarstjórnarfólk um land allt ætti að skipta sér meira að þessu.

„Við erum ekki farin að skipuleggja verkfallsaðgerðir. Mér sýnist að samninganefnd sveitarfélaganna vilji að við förum að huga í því.“

Deilt í sjö mánuði

Kjaradeila Starfsgreinasambandsins og Sambands sveitarfélaga hefur staðið í 7 mánuði og lítið þokast. SGS vísaði deilunni til ríkissáttasemjara í lok maí vegna deilu um lífeyrisauka, sem var vísað til Félagsdóms og bíður nú niðurstöðu Hæstaréttar.  Þegar samkomulag náðist í byrjun september um eingreiðslu afturkölluðu samninganefndirnar vísun kjaradeilunnar til ríkissáttasemjara. Stefnt var að því að ljúka samningum um síðustu helgi.