Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stefna ætti að hagsæld frekar en að hagvexti

12.09.2018 - 21:41
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata. - Mynd: RÚV / RÚV
Síðasta þing var Halldóru Mogensen, þingmanni Pírata, erfitt, að því er hún sagði í umræðum eftir stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld. „Er það mikið til vegna þeirra væntinga sem ég hafði til starfsins og fólksins hér inni og þeirra vonbrigða sem ég upplifði þegar ég áttaði mig á því að mikilvægum málefnum yrði fórnað í nafni stöðugleikans,“ sagði Halldóra í ræðu sinni.

Hún sagði orðið stöðugleika merkja óbreytt ástand og stöðnun. Þá sagði Halldóra að í fjárlagafrumvarpi næsta árs verði aukið við málaflokka sem lengi hafi verið fjársveltir. „En þegar við ausum vatni úr sökkvandi bát með skeið er lausnin ekki fólgin í því að útvega okkur fötu heldur að draga bátinn í slipp.“

Halldóra gagnrýndi að efnahagskerfið hér á landi væri háð linnulausum vexti hagkerfisins og í mörgum tilfellum drifið áfram af „láglaunuðu striti og sívaxandi neyslu almennings“. Hún lagði áherslu á að ef stefnan væri að byggja betra samfélag fyrir alla yrði að hafa vellíðan, jafnvægi og hagsæld, frekar en hagvöxt að leiðarljósi. „Framtíðin getur ekki snúist um auðsöfnun og síaukna neyslu. Hún þarf að snúast um tilgang og réttláta og sjálfbæra velmegun.“

Hægt er að hlusta á ræðuna í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir