Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stefna á jákvætt eigið fé í lok næsta árs

Mynd með færslu
Útsýni úr skála Vatnajökulsþjóðgarðs við Öskju í morgun Mynd: Sigurður Erlingsson
Framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs segir að stefnan sé að eigið fé þjóðgarðsins verði orðið jákvætt í lok næsta árs.

Ríkisendurskoðun hefur skilað skýrslu til Alþingis um rekstur Vatnajökulsþjóðgarðs. Þar kemur fram að rekstur þjóðgarðsins hafi verið í ólestri undanfarin ár. 200 milljóna króna tap varð á rekstrinum árið 2017 og taprekstur áranna á undan hafi gengið hratt á eigið fé þjóðgarðsins sem er orðið neikvætt um 186 milljónir króna.

Viðsnúningur varð á rekstrinum í fyrra og var hagnaðurinn 19 milljónir. „Það stefnir í að hagnaðurinn verði 60 milljónir króna á þessu ári og því næsta. Okkar plön miða að því að eigið fé þjóðgarðsins verði orðið jákvætt í lok næsta árs,“ segir Magnús Guðmundsson sem tók við starfi framkvæmdastjóra í júní.

Úttekt Ríkisendurskoðunar var gerð eftir að svarta úttekt Capacent á starfsemi þjóðgarðsins. Var niðurstaðan sú að þótt margt hafi áunnist síðan skýrslan kom út sé úrbóta enn þörf. Magnús segir að nú þegar sé búið að hrinda mörgum af þessum úrbótum í framkvæmd. „Það hefur verið markvisst unnið að úrbótum á grundvelli úttektar Capacent en við töldum rétt að Ríkisendurskoðun kæmi að málinu og báðum um það. Það er þess vegna margt búið að gerast síðan skýrslan varð til.“