Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Stefán Karl Stefánsson látinn

Mynd með færslu
 Mynd:

Stefán Karl Stefánsson látinn

21.08.2018 - 18:33

Höfundar

Stefán Karl Stefánsson, leikari, er látinn, 43 ára að aldri. Þetta tilkynnti Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir eiginkona hans á Facebook. Saman áttu þau fjögur börn. Stefán og Steinunn höfðu rætt opinskátt um baráttu Stefáns við krabbamein í fjölmiðlum en í júní á síðasta ári greindi Steinunn Ólína frá því að krabbameinið væri langt gengið og lífslíkur Stefáns hefðu minnkað verulega.

Stefán Karl var einn fremsti leikari þjóðarinnar. Hann öðlaðist heimsfrægð sem Glanni glæpur í sjónvarpsþáttunum um Latabæ, ferðaðist um öll Bandaríkin sem Trölli í samnefndum söngleik og lék í fjölmörgum eftirminnilegum uppfærslum í íslensku leikhúsunum. Þá lét hann sig varða málefni barna sem lögð höfðu verið í einelti og stofnaði samtökin Regnbogabörn. Hann var sæmdur riddarkrossi í júní fyrir framlag sitt til íslenskrar leiklistar og samfélags.

Eitt af síðustu hlutverkum hans á sviði var þegar hann og Hilmir Snær Guðnason endurtóku leikinn í leikritinu Með fulla vasa af grjóti. Lokasýning verksins var sýnd í beinni útsendingu á RÚV í október á síðasta ári. Verkið sló í gegn þegar það var fyrst sýnt um aldamótin en þá voru sýningar hátt í 200 talsins.   

Menningin á RÚV ræddi við Stefán Karl og Hilmi Snæ daginn fyrir frumsýningu þann 31. ágúst. „Ég kom inn á spítalann fyrir sex vikum að hitta Stefán Karl, því ég hafði heyrt að þessi hugmynd væri í loftinu – þá var ég nýkominn úr veiðitúr, kem á spítalann og sé Stefán Karl með slöngur um allan líkamann, slöngur út úr nefinu, augum og eyrum. Ég var búinn að heyra að við ættum að gera þessa sýningu. Ég lít á hann og segi „Stefán Karl, er þér alvara, eigum við að gera þetta?“, hann liggur í rúminu og segir móður, „já er það ekki, eigum við að slá til?““ sagði Hilmir Snær.

Mynd: RÚV / RÚV

Stefán Karl útskrifaðist úr leiklistarskólanum árið 1999 og var strax fastráðinn við Þjóðleikhúsið þar sem hann lék meðal annars titilhlutverkið í Cyrano frá Bergerac. En það var leikur hans sem Glanni glæpur í sjónvarpsþáttunum um Latabæ sem gerði Stefán heimsfrægan. Aðdáendur hans settu meðal annars af stað hópfjármögnun til að styðja baráttu hans við veikindin. Rúmlega sex milljónir söfnuðust á einum mánuði.  

Í framhaldi af velgengni þáttanna um Latabæ fluttust Stefán Karl og Steinunn Ólína til Bandaríkjanna og bjuggu þar um skeið. Um tíma virtust hlutirnir ekki ætla að ganga upp en svo kom stóra tækifærið - Stefán var ráðinn til að leika aðalhlutverkið í stórri uppfærslu á söngleiknum Þegar Trölli stal jólunum.  Sýningin ferðaðist vítt og breitt um Bandaríkin og Kanada í níu ár og var sett upp tæplega 600 sinnum.

Haustið 2016 greindi Steinunn Ólína svo frá því að Stefán hefði greinst með krabbamein. Í viðtali við Gunnar Hansson í útvarpsþættinum Gestaboði í nóvember á síðasta ári sögðu þau frá því að ekki væri vitað hvað Stefán ætti langt eftir. „Við erum að reyna að gera sem mest saman og búa til minningar saman. Ég veit ekki hvað ég á langt eftir, það getur verið allt frá ári upp í tvö ár. Allt umfram tvö ár er bara kraftaverk.“  

Stefán ræddi veikindi sín opinskátt í fjölmiðlum og sagði í viðtali við Síðdegisútvarpið að viðbrögð þjóðarinnar hefðu verið hans áfallahjálp. „Það sem kom á móti okkur var flóðbylgja af batakveðjum og vonin kom svo sterk til mín í gegnum þennan samhug. Það raunverulega bjargaði mér og varð mín áfallahjálp að mörgu leyti, viðbrögð þjóðarinnar.“

Mynd:  / 

Það vakti ekki síður athygli þegar Stefán virtist hafa snúið sér að grænmetisframleiðslu og óskaði eftir lóð fyrir gáma undir ræktunina. Í ljós kom að hann ætlaði að hefja ræktun á svokallaðri grænsprettu eða microgreens eins og það kallast á ensku. Hann ræddi þetta betur við Helgu Arnardóttur í Kastljósi fyrir tveimur árum síðan.

„Yndið mitt, Stefán Karl Stefánsson, er látinn eftir tveggja ára baráttu við illvígt gallgangakrabbamein,“ sagði Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, eiginkona Stefáns Karls, þegar hún tilkynnti um andlát hans. „Að ósk hins látna verður engin jarðarför og jarðneskum leifum dreift í kyrrþey á úthafi fjær. Fjölskyldan þakkar auðsýndan stuðning og hlýhug á undangengnum árum og sendir hinum fjölmörgu vinum og aðdáendum Stefáns Karls sínar innilegustu samúðarkveðjur.“