Stefán Karl var einn fremsti leikari þjóðarinnar. Hann öðlaðist heimsfrægð sem Glanni glæpur í sjónvarpsþáttunum um Latabæ, ferðaðist um öll Bandaríkin sem Trölli í samnefndum söngleik og lék í fjölmörgum eftirminnilegum uppfærslum í íslensku leikhúsunum. Þá lét hann sig varða málefni barna sem lögð höfðu verið í einelti og stofnaði samtökin Regnbogabörn. Hann var sæmdur riddarkrossi í júní fyrir framlag sitt til íslenskrar leiklistar og samfélags.
Eitt af síðustu hlutverkum hans á sviði var þegar hann og Hilmir Snær Guðnason endurtóku leikinn í leikritinu Með fulla vasa af grjóti. Lokasýning verksins var sýnd í beinni útsendingu á RÚV í október á síðasta ári. Verkið sló í gegn þegar það var fyrst sýnt um aldamótin en þá voru sýningar hátt í 200 talsins.
Menningin á RÚV ræddi við Stefán Karl og Hilmi Snæ daginn fyrir frumsýningu þann 31. ágúst. „Ég kom inn á spítalann fyrir sex vikum að hitta Stefán Karl, því ég hafði heyrt að þessi hugmynd væri í loftinu – þá var ég nýkominn úr veiðitúr, kem á spítalann og sé Stefán Karl með slöngur um allan líkamann, slöngur út úr nefinu, augum og eyrum. Ég var búinn að heyra að við ættum að gera þessa sýningu. Ég lít á hann og segi „Stefán Karl, er þér alvara, eigum við að gera þetta?“, hann liggur í rúminu og segir móður, „já er það ekki, eigum við að slá til?““ sagði Hilmir Snær.