Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Stefán Karl, er þér alvara?“

Mynd: RÚV / RÚV

„Stefán Karl, er þér alvara?“

30.08.2017 - 20:09

Höfundar

Tvíleikurinn Með fulla vasa af grjóti, með þeim Stefáni Karli Stefánssyni og Hilmi Snæ Guðnasyni sló í gegn þegar hann var frumsýndur hér um aldamótin. Verkið gekk fyrir fullu húsi mánuðum saman, en sýningar urðu hátt í 200 talsins þegar upp var staðið. Leikurinn verður endurtekinn á fimmtudag, þegar verkið fer á fjalirnar í þriðja sinn.

„Það eru kannski helst aðstæðurnar sem geta orðið fyndnar. Alveg eins og aðstæður í okkar lífi. Hversu alvarlega sem við lítum á þær, þá geta þær orðið fyndnar fyrir aðra. Það er þetta leikrit: það eru aðstæðurnar sem persónurnar lenda í sem eru hlægilegar,“ segir Hilmir Snær.

Þeir félagar segja margt hafa breyst milli uppfærslna, þeir sjái sífellt nýja fleti og merkingu í verkinu. Leikhópurinn er þó óbreyttur frá fyrri tíð – Hilmir Snær og Stefán Karl hafa leikið saman í öllum þremur uppfærslunum og leikstjórinn, Ian McElhinney, hefur stýrt þeim öllum.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Frá uppsetningu verksins árið 2000.

„Ég kom inn á spítalann fyrir sex vikum að hitta Stefán Karl, því ég hafði heyrt að þessi hugmynd væri í loftinu – þá var ég nýkominn úr veiðitúr, kem á spítalann og sé Stefán Karl með slöngur um allan líkamann, slöngur út úr nefinu, augum og eyrum. Ég var búinn að heyra að við ættum að gera þessa sýningu. Ég lít á hann og segi „Stefán Karl, er þér alvara, eigum við að gera þetta?“, hann liggur í rúminu og segir móður „já er það ekki, eigum við að slá til?“, segir Hilmir Snær.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Frá þriðju uppsetningu verksins, 2017.

Undirbúningur hefur gengið vel þrátt fyrir veikindi Stefáns Karls.

Verkið verður frumsýnt þann 31. ágúst og verður lokasýningin þann 1. október. Um takmarkaðan sýningafjölda er að ræða, en sýnt verður á stóra sviði Þjóðleikhússins. Lokasýningin verður síðan í beinni útsendingu á RÚV.

 

Tengdar fréttir

Innlent

„Lífið er núna“