Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stefán Eiríksson nýr útvarpsstjóri

28.01.2020 - 14:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Stefán Eiríksson verður nýr útvarpsstjóri. Hann tekur til starfa 1. mars næstkomandi. Stjórn RÚV tilkynnti þetta í dag. Ákvörun um að ráða Stefán var tekin samhljóða á fundi stjórnarinnar í gærkvöldi.

Stefán Eiríksson hefur verið borgarritari síðan í desember 2016. Áður var hann lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Stefán er menntaður lögfræðingur með próf frá Háskóla Íslands.

Í tilkynningu frá stjórn útvarpsins segir að Stefán hafi umfangsmikla reynslu af stjórnun og rekstri, sem stjórnandi opinberrar stofnunar um árabil, sem skrifstofustjóri og staðgengill ráðuneytisstjóra, sem stjórnarmaður og stjórnarformaður í opinberu hlutafélagi, sem sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og nú síðast sem borgarritari og staðgengill borgarstjóra.

Stefán lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1996 og hdl. árið 1997. Þá hefur hann sótt ýmis námskeið tengt stjórnun og lokið sérhæfðu stjórnendanámi Bloomberg Harvard City Leadership Initiative.

Áhersla á hæfniskröfurnar

Alls sótti 41 um stöðu útvarpsstjóra. Umsóknarfresturinn var upphaflega til 2. desember en var framlengdur um viku til þess að stjórnin hefði úr fleiri umsóknum að moða. Nöfn umsækenda voru ekki gerð opinber.

Í tilkynningunni segir að í ráðningarferlinu hafi verið lögð áhersla á meta umsækjendur út frá þeim hæfniskröfum sem fram voru settar í auglýsingunni um starfið. Þar var rík áhersla lögð á þekkingu, reynslu og færni í stjórnun og rekstri og leitað eftir öflugum leiðtoga til að stýra RÚV inn í nýja tíma miðlunar.

Tíundi útvarpsstjórinn

Stefán tekur við af Magnúsi Geir Þórðarsyni sem var skipaður þjóðleikhússtjóri 1. nóvember. Hann hætti fljótlega eftir það og Margrét Magnúsdóttir, skrifstofustjóri RÚV, tók við sem starfandi útvarpsstjóri 15. nóvember.

Stefán er tíundi útvarpsstjóri Ríkisútvarpssins. Áður hafa eftirtaldir verið útvarpsstjórar.

  • Jónas Þorbergsson (1930-1953)
  • Sigurður Þórðarson (settur) (1950-1952)
  • Vilhjálmur Þ. Gíslason (1953-1967)
  • Andrés Björnsson (1968-1986)
  • Markús Örn Antonsson (1985-1991)
  • Heimir Steinsson (1991-1996)
  • Pétur Guðfinnsson (settur) (1996-1997)
  • Markús Örn Antonsson (1998-2005)
  • Páll Magnússon (2005-2013)
  • Magnús Geir Þórðarson (2014-2019)

Útvarpsstjóri er ráðinn af stjórn til fimm ára í senn. Hann er æðsti yfirmaður allrar dagskrárgerðar og hefur daglegan rekstur Ríkisútvarpsins með höndum. Hann skal hafa að leiðarljósi hlutverk og skyldur þess eins og kveðið er á í lögum. Útvarpsstjóri ræður aðra starfsmenn Ríkisútvarpsins þ.m.t. framkvæmdastjóra.