Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

STEF setur fjarskiptafyrirtækjum afarkosti

19.10.2014 - 12:51
Mynd með færslu
 Mynd:
STEF hefur gefið Símanum, Tali og 365 frest til miðvikudags til að svara því hvort þau ætla að loka á aðgang sinna notenda að torrent-vefsíðunum deildu.net og Pirate Bay. Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í síðustu viku að sýslumaður skyldi setja lögbann á aðgang notenda Vodafone og Hringdu.

Höfundaréttarsamtökin bíða þess nú að sýslumaður, sem áður hafði hafnað lögbanni, taki lögbannskröfuna gegn Vodafone og Hringdu fyrir á ný. Í framhaldi af úrskurði héraðsdóms skoraði STEF á Símann, Tal og 365 að fylgja fordæminu og loka fyrir aðgang sinna notenda.

Í bréfi til lögmanna símafyrirtækjanna þriggja segir STEF að hafi þau ekki svarað á miðvikudaginn ætli STEF að halda áfram lögbannsaðgerðum gegn þeim. Deildu.net og Pirate Bay miðla svokölluðum torrent-skrám sem gera fólki kleift að deila tónlist, kvikmyndum og öðru stafrænu efni sín á milli. 

Vodafone benti fyrir dómi á að netnotendur gætu með einföldum hætti komist framhjá lögbanninu með því að nota svokallaðar staðgengils- eða proxy-þjónustur. Lögbannið myndi því hafa takmarkaða þýðingu. Dómurinn féllst ekki á þetta.

Strax daginn eftir að héraðsdómur kvað upp úrskurð sinn var vefsvæði deildu.net fært um set, á slóðina iceland.pm. Úrskurður héraðsdóms tiltekur nákvæmlega hvaða vefslóðir á að loka fyrir og nær því ekki til nýju slóðarinnar.