Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Starfsmönnum RÚV fækkar um sextíu

Mynd með færslu
 Mynd:

Starfsmönnum RÚV fækkar um sextíu

27.11.2013 - 08:36
Draga þarf árlegan rekstrarkostnað RÚV saman um 500 milljónir króna - komi ekki til enn frekari skerðingar á tekjum RÚV við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins. Fækka þarf starfsmönnum hjá Ríkisútvarpinu um sextíu, þar af verða beinar uppsagnir 39 sem koma til framkvæmda nú þegar.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Páll Magnússon, útvarpsstjóri, sendi frá sér í morgun. Í tilkynningunni er haft eftir Páli að niðurskurður af þessari stærðargráðu hafi mikil áhrif á dagskrá Ríkisútvarpsins - hann muni bæði sjást og heyrast. „Nokkrir dagskrárliðir í útvarpi og sjónvarpi hverfa, öðrum fækkar og enn aðrir breytast og þynnast. Fréttatímar munu styttast og þeim mun fækka, “ er haft eftir Páli.

Hann segir að ekki séu aðrar leiðir færar til að mæta aðgerðum stjórnvalda nú en að fækka starfsfólki og draga saman í dagskrá. Hingað til hafi tekist að verja dagskrána sjálfa vel fyrir samdrætti sem hafi verið rúmlega 20 prósent að raungildi á fimm ára tímabili.  „Nú verður ekki lengra gengið í lækkun á öðrum kostnaði og sömuleiðis tekur við lögþvinguð lækkun á kostunar- og auglýsingatekjum RÚV um næstu áramót – ofan á almennan samdrátt á þeim markaði.“