Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Starfsmenn Stay Apartments komnir með aðstöðu

07.06.2016 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vinnueftirlitið hefur samþykkt nýja starfsmannaaðstöðu sem komið hefur verið upp hjá fyrirtækinu Stay Apartments í Reykjavík. Þetta segir Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlitsins. Vinnueftirlitið heimsótti fyrirtækið í gær, eftir að fjallað var um það í fréttum á sunnudaginn. Þar kom fram að átta manns, sem unnu við þrif hjá fyrirtækinu, hafi verið sagt upp eftir að þeir kröfðust þess að fá fasta starfsmannaaðstöðu.

Eyjólfur segir að eitt gistiherbergjanna hafi verið tekið undir aðstöðu fyrir starfsmenn, og að Vinnueftirlitið hafi samþykkt þá aðstöðu. Ætli eigandinn að hafa verktaka í vinnu við þrif þurfi þeir aðstöðu eins og aðrir. Halldór Gerhard Meyer, eigandi Stay Apartments, vill árétta að hann hafi ekki sagt starfsmönnunum átta upp vegna þess að þeir kvörtuðu yfir aðstöðunni, heldur hafi það verið gert í hagræðingarskyni. Sú ákvörðun hafi verið tekin óháð aðfinnslum starfsmannanna.