Starfsmenn og sjúklingur á Landakoti smitaðir

26.03.2020 - 16:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lokað hefur verið fyrir innlagnir á Landakot vegna COVID-19 smita meðan unnið er að smitrakningu vegna þeirra smita. Meðan staðan er þessi er möguleiki á að fólk verði útskrifað af Landakoti til að fara í sóttkví heima við en ekki á að senda fólk þaðan á stofnanir fyrst um sinn, samkvæmt yfirliti frá viðbragðsstjórn og farsóttanefnd Landspítala í dag.

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítala, segir að unnið sé að því að meta umfang smitsins á Landakoti. Hann sagði bæði starfsmenn og sjúkling smitaðan. „Við vitum ekki umfangið. Við vitum ekki atburðarásina, hvort sjúklingurinn smitaði starfsmenn eða starfsmaður sjúkling.“

Fólk hefur verið kvíað af á Landakoti og fylgst er með því. Jafnframt hefur fólk fengið fyrirmæli um hvernig það skuli athafna sig.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Biðja starfsfólk að gæta fyllstu varkárni utan spítala

Már segir að margir starfsmenn í heilbrigðiskerfinu hafi verið óttaslegnir vegna þess að þeir þurfa að annast smitaða einstaklinga. „Reynsla okkar er sú að það eru ekki starfsmenn sem smitast af sjúklingum sem eru inniliggjandi,“ segir Már og tekur fram að þar sé hann ekki að tala um Landakot eitt og sér heldur heilbrigðiskerfið í heild sinni.

„Við höfum verið að gera því skóna að starfsfólk sé frekar að koma úr sínu umhverfi inn á heilbrigðisstofnanir með smitið. Við erum í yfirlýsingu farsóttadeildar í dag að beina því til starfsfólks að það gæti sín með sama hætti úti í samfélaginu eins og það gerir á spítalanum,“ segir Már.

Í yfirlýsingu viðbragðsstjórnar og farsóttanefndar í dag segir að undanfarið hafi komið upp smit á Landspítalanum sem rekja megi til samskipta utan spítalans. Því er sagt brýnt að starfsmenn gæti sérstaklega vel að sér utan vinnustaðarins og fari í einu og öllu að tilmælum sóttvarnalæknis. Jafnframt hvetur viðbragðsstjórn og farsóttanefnd starfsmenn til að forðast eins og hægt er samneyti við aðra utan vinnu.

Már tekur fram að með þessu sé ætlunin ekki að skamma neinn eða beina sök að einhverjum heldur einfaldlega vekja athygli á þeim aðgerðum sem þarf til að kveða faraldurinn niður.

„Ógnin okkar er ekki fólkið sem við vitum að er smitað og er mjög veikt. VIð pössum okkur á því og erum með miklar ráðstafanir til að tempra útbreiðslu frá þeim.“

Rjóðrinu lokað til að flytja starfsfólk annað

Vegna COVID-smita meðal starfsmanna á Barnaspítala Hringsins verður Rjóðrinu lokað. Það sinnir langveikum börnum. Alma Möller landlæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag að Rjóðrinu yrði lokað til hægt væri að flytja til starfsfólk innan barnaspítalans. Að auki væri þetta gert til að vernda þann viðkvæma hóp barna sem hefur fengið þjónustu í Rjóðrinu.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi