Starfsmenn í álverinu komnir með kjarasamning

19.03.2020 - 10:19
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist Jónsson - RÚV
Kjarasamningar hafa náðst milli verkalýðsfélaga starfsfólks sem starfar í álverinu í Straumsvík og Isals, sem rekur álverið. Þetta kemur fram á vef verkalýðsfélagsins Hlífar. Samningurinn gildir frá 1. júní í fyrra til 31. mars 2021, eða alls í 22 mánuði. Verkfallsaðgerðum, sem hefjast áttu á þriðjudag hefur því verið frestað.

Á vef Hlífar segir að samningurinn byggi í öllum meginatriðum á þeim kjarasamningum sem þegar er búið að gera. Því til viðbótar náðust inn að hluta leiðréttingar á ýmsu þar sem laun starfsfólks í álverinu hafa dregist aftur úr öðrum samningum frá 2015.

Samningurinn verður kynntur á næstu dögum á vegum félaganna. Kynningarnar munu taka tillit til ástandsins í samfélaginu vegna COVID-19 faraldursins og fara að einhverju leyti fram í fjarfundaformi og á vefjum félaganna. Áætlað er að atkvæðagreiðsla um samninginn hefjist klukkan ellefu á þriðjudag og ljúki klukkan 11 á föstudag eftir viku. 

Fréttir af rekstrarvandræðum álversins í Straumsvík voru áberandi í febrúar, þegar fyrirtækið tilkynnti að reksturinn yrði tekinn til endurskoðunar. Reinhold Richter aðaltrúnaðarmaður starfsmanna, sagði í fjölmiðlum að kjarasamningur við tæplega 400 starfsmenn hefði legið fyrir 24. janúar, en eigandinn Rio Tinto hafi ekki gefið grænt ljós á undirskrift samninganna.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi