Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Starfshópur gæti höggvið á hnút í gangamálum

28.08.2017 - 10:21
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Samgönguráðherra hefur sett á laggirnar starfshóp til að skera úr um hvort æskilegra sé að tengja Seyðisfjörð við Egilsstaði með göngum undir Fjarðarheiði eða gera þrenn göng um svokallaða Fjarðaleið. Hann segir að framkvæmdin yrði mjög dýr og mikilvægt að velja besta kostinn. Forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði segir að þar ríki einhugur um að göng til Egilsstaða sé besti kosturinn.

Jón Gunnarsson samgönguráðherra fundaði nýverið með austfirskum sveitarstjórnarmönnum og kynnti nýja starfshópinn á opnum fundi á Reyðarfirði. Segja má að starfshópnum sé ætlað að höggva á ákveðinn hnút sem hefur verið í jarðgangamálum Seyðfirðinga. Unnið hefur verið að rannsóknum á hugsanlegum göngum undir Fjarðarheiði til Egilsstaða en þau yrðu rúmlega 12 kílómetra löng. Á sama tíma hefur verið bent á möguleikann á hringtengingu Austurlands; með henni yrði vetrareinangrun Mjófirðinga rofin með tengingu Seyðisfjarðar við Mjóafjörð, þaðan áfram til Norðfjarðar og göngum úr Mjóafirði upp á Fagradal til Héraðs.

Jón Gunnarsson samgönguráðherra segir að starfshópurinn eigi að skila niðurstöðu innan nokkurra mánaða. „Þetta er þegar og ef af verður einhver stærsta framkvæmd í samgöngumálum sem farið hefur verið í og tekin ákvörðun um hér. Við þurfum því að vanda undirbúninginn mjög vel og við höfum ákveðið að setja saman starfshóp til þess að meta áhrifin af þessu og út frá því hvaða leið er skynsamlegast að fara. Í framhaldi af því geta menn svo sett þetta inn í samgönguáætlun en við erum að vinna bæði skammtíma- og langtímaáætlun núna í ráðuneytinu,“ segir Jón.

Arnbjörg Sveinsdóttir, forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði,  fagnar því að deilum um jarðgöng til Seyðisfjarðar fari að ljúka og hún efast ekki um hver niðurstaðan verði. „Við teljum að þetta sé ákveðið skref í þá átt að þessi jarðgöng verði að veruleika undir Fjarðarheiði. Mörgum finnst löngum kominn tími til að okkar samgöngumálum á Seyðisfirði verði sinn.“