Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Starfa á fjallstoppum í ratsjárstöðvum NATO

18.02.2019 - 19:33
Mynd:  / 
Þótt sjálfvirknin taki við og herlið NATO hverfi á brott halda ratsjár NATO á Íslandi áfram að snúast. Þrátt fyrir að tvær stöðvanna séu á fjallstoppum sækir fólk þangað vinnu daglega en getur fests í vinnunni vegna veðurs.

Á vélsleða í vinnuna

Guðmundur er á leið í vinnuna, sem er á toppi Bolafjalls, í 600 metra hæð. Þangað liggur reyndar vegur en hann er ekki ruddur.  „Við keyrum á sumrin og svo þegar fer að hausta og snjóa þá erum við með hjólaskófluna til að opna meðan við getum komið snjónum þokkalega frá okkur. Svo förum við yfir á sleðana og þá fáum við oft snjóbíl með til að ryðja slóðann,“ segir Guðmundur Ragnarsson, umsjónarmaður ratsjárstöðvar NATO á Bolafjalli.

Fjórar ratsjárstövðar NATO á landinu

Guðmundur starfar fyrir Landhelgisgæsluna sem annast rekstur íslenska loftvarnarkerfisins sem er hluti af samþættu loftvarnarkerfi Atlantshafsbandalagsins, NATO. Íslenska loftvarnarkerfinu tilheyra fjórar ratsjár- og fjarskiptastöðvar í landshornunum fjórum. Á Miðnesheiði á Reykjanesi, Stokksnesi við Höfn í Hornafirði og á fjallstoppum Bolafjalls við Bolungarvík og á Gunnólfsvíkurfjalli á Langanesi.

Ratsjáin heldur áfram að snúast þrátt fyrir breytingar

Með stöðvunum er fylgst með flugumferð og þær búa einnig yfir öruggum fjarskiptabúnaði. Stöðin á Bolafjalli hefur verið starfrækt frá 1992 og Guðmundur hóf störf árið 1997. „Það hefur mikið breyst. Við erum tveir til dæmis núna, en vorum tólf. Þegar það voru tæknimenn líka þá voru þeir á sólahringsvöktum, þeir voru átta og svo vorum við fjórir dagmenn, þeir voru alltaf í stöðinni,“ segir Guðmundur. En þrátt fyrir að sjálfvirknin hafi tekið yfir, og brotthvarf herliðs NATÓ, þá starfar stöðin áfram. „Radarinn snýst alltaf og allur búnaðurinn í fullum gangi allan sólarhringinn allt árið,“ segir Guðmundur.

Festist stundum í vinnunni

Hefurðu einhvern tímann fest hérna uppi? „Já, við höfum verið hérna í nokkra sólarhringa í einu,“ segir Guðmundur. „Svo er það oft þannig að það sést ekki neitt og veðrið er þannig þá erum við ekkert á ferðinni.“

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður