Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stanslausir fornleifafundir í Líma

24.02.2020 - 09:21
epa06805820 Archaeologists clean bone remains during an excavation in Pampa La Cruz, a pre-Columbian archaeological site, belonging to the Chimu culture, located near the city of Trujillo, Peru, 13 June 2018. The excavation by a Peruvian research team, funded by the National Geographic Society, found the remains of 111 children sacrificed in the pre-Columbian era by the Chimu, Peruvian archaeologist Feren Castillo announced on the same day.  EPA-EFE/ERNESTO ARIAS
 Mynd: epa
Verkamenn í Líma, höfuðborg Perú, hafa í um tvo áratugi rekist reglulega á merkilegar fornleifar sem varpa ljósi á líf forfeðra þeirra. Talið er að undir yfirborði höfuðborgarinnar sé að finna leifar um byggð fyrir allt að 10.000 árum. 

Calidda, sem er gasfyrirtæki í eigu ríkisins, hefur lagt um 10.000 kílómetra af gasleiðslum um Líma, höfuðborg Perú á síðustu 16 árum. Verkamenn fyrirtækisins hafa oftar en 300 sinnum rekist á fornleifar, þær elstu allt að 2.000 ára gamlar. Fyrir nokkrum vikum rákust starfsmenn Calidda á fjórar fornar grafir og keramik frá Inka-tímabilinu. Og fyrir tveimur árum fundu menn líkamsleifar bænda sem voru á meðal fyrstu kínversku innflytjendanna til Perú á 19. öld. 

Samkvæmt perúskum lögum þarf að tilkynna alla fornleifafundi til menningarmálaráðuneytisins. Gasfyrirtækið leggur áherslu á að slíkt sé gert og er sjálft með fornleifafræðinga á launum til að rannsaka það sem finnst. Sömu sögu er ekki að segja af öllum fyrirtækjum sem róta í jarðvegi höfuðborgarinnar. Fyrir nokkrum árum urðu verkamenn sem unnu fyrir byggingaverktaka til dæmis uppvísir að því að eyðileggja pýramídalagað mannvirki sem talið er að hafi verið 4.500 ára gamalt.

Svæðið þar sem höfuðborgin Líma liggur, er umlukið þremur ám sem renna úr hlíðum Andesfjalla. Þar er talið að siðmenning hafi fundist í þúsundir ára áður en spænskir landnemar gerðu sig þar heimakomna árið 1525. Svæðið er þakið gömlum greftrunarstöðum, áveituskurðum og vegaslóðum sem felast undir þunnu lagi nútímamannsins.

Jesus Bahamonde fornleifafræðingur segir að búið hafi verið á svæðinu í kringum Líma í meira en 10.000 ár, og því sé öruggt að mikið af fornminjum leynist undir höfuðborginni.

 

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV