Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Stálu skrautlegu safni af kynlífshjálpartækjum

24.02.2018 - 15:26
Mynd með færslu
 Mynd:
Grímuklæddir þjófar brutust í vikunni inn í kynlífshjálpartækjaverslunina Adam og Evu við Kleppsveg í Reykjavík og höfðu á brott með sér hjálpartæki og sleipiefni fyrir marga tugi þúsunda. Svo virðist sem þeir hafi valið gripina af kostgæfni. „Þetta var ansi skrautlegt safn af vörum,“ segir verslunarstjórinn Ylfa Kristín Pétursdóttir. Þjófarnir eru ófundnir – eins og þýfið.

Innbrotið aðfaranótt fimmtudags náðist á öryggismyndavélar sem Ylfa hefur skoðað upptökurnar úr. Þar sjást mennirnir brjóta rúðu í búðarglugganum og skríða inn um hann. Þeir ganga því næst um búðina og raða munum í töskur sem þeir hafa meðferðis. „Þetta eru ekki mjög hefðbundnar vörur,“ segir Ylfa og telur upp stóra gervipíku, svokallaða píkupumpu og þrjá mismunandi rasstappa með áföstu skotti.

„Þetta er ekki mjög söluvænlegt á svörtum markaði. Mér fannst þetta virka meira eins og þeir væru að leita sér að vörum til að nota sjálfir – annars hefðu þeir líklega tekið dýrustu hlutina til að selja. Þeir virtust bara vera að skoða,“ segir hún.

Þeir tóku líka mikið af sleipiefni – fimm eða sex brúsa af ólíkum tegundum. „Eitthvað hafa þeir þurft að nota með þessu,“ segir Ylfa, sem telur að heildarverðmæti þýfisins sé um hundrað þúsund krónur.

Mynd með færslu
 Mynd:

„Mjög einkennilegt rán“

Ylfa segir mennina rétt hafa litið á peningakassann en ekki leitað frekar að fjármunum þegar þeir sáu að kassinn var tómur heldur snúið sér að vörunum sem í boði voru. „Þeir virtust hafa mestan áhuga á þeim – þetta er mjög einkennilegt rán,“ segir Ylfa.

Mennirnir eru mjög ógreinilegir á upptökunum auk þess sem þeir hylja andlit sín og Ylfa segir að þess vegna sé erfitt að átta sig á hverjir hafi verið að verki. Af klæðaburði tvímenninganna að dæma giskar Ylfa þó á að þeir séu á þrítugsaldri. Hún segir að nú sé verið að kanna öryggismyndavélar í nágrenninu til að athuga hvort bíll mannanna sjáist þar. Lögreglu hafi strax verið tilkynnt um málið.

Hafið þið lent í svona áður?
„Ekki í mjög mörg ár en fyrir þó nokkrum árum braust maður inn til okkar og stal gervipíku,“ segir Ylfa Kristín Pétursdóttir, verslunarstjóri í Adam og Evu.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV