Stalst í kirkju fyrir leikinn gegn Króötum

Emil Hallfreðsson
 Mynd:

Stalst í kirkju fyrir leikinn gegn Króötum

28.10.2017 - 09:00

Höfundar

Á horni Katrínartúns og Laugarvegar í Reykjavík stendur Fíladelfía, kirkja Hvítsunnusafnaðarins í Reykjavík. Þar hitti ég knattspyrnumanninn Emil Hallfreðsson, leikmann Udinese á Ítalíu, á sólríkum sumardegi - til að tala um Guð. 

Helgi Guðnason, forstöðumaður kirkjunnar er rétt búinn að hleypa okkur inn í helgidóminn þegar Emil minnist síðasta fundar þeirra Helga. Á sunnudegi, sama dag og Ísland tók á móti ógnarsterku liði Króata í undankeppni HM. 

„Ég vakna um morguninn og er bara í góðum fíling en er samt smá stressaður, ég hef ekkert alltaf verið í byrjunarliðinu í landsliðinu þótt ég sé að spila þar sem ég er að spila í dag," segir Emil, sem sá sér þarna leik á borði. Fíladelfía er aðeins í nokkur hundruð metra fjarlægð frá hótelinu sem landsliðið dvelur á og þar var samkomu nýlokið."

Emil Hallfreðsson
 Mynd:
Emil og Guðmundur að loknu viðtali fyrir framan Fíladelfíu.

„Við tökum létta æfingu um morguninn og eftir hana gefast svona 45 mínútur. Maður á að vera á hótelinu og á ekkert að fara út af því á leikdegi. En ég hugsa, ég ætla að þjóta upp í kirkju, í Fíló, og láta biðja fyrir mér fyrir leikinn í kvöld.“

Emil bregður fyrir sér betri fætinum, röltir upp í kirkju og finnur þar Helga á skrifstofunni. 

„Ég spyr hann hvort við getum ekki beðið fyrir leiknum, minni frammistöðu og að þetta muni fara allt vel. Við báðum saman inni í herbergi. Og svo fór sem fór, við unnum þá 1-0 og ég átti góðan leik. Ég var smá stressaður fyrir leikinn og langaði ótrúlega að standa mig. Þannig að bænin virkar," segir hann og brosir í kampinn. 

Eru íþróttamenn trúaðri en annað fólk?

Í öðrum þætti þáttaraðarinnar Markmannshanskarnir hans Albert Camus ræðir Guðmundur Björn Þorbjörnsson við knattspyrnumaninn Emil Hallfreðsson um trú og samband íþróttamannsins við Guð, hvort Guð skipti sér á annað borð af íþróttaleikjum og hvort það stoði nokkuð að leita til Guðs, þegar það eru 20 metrar á sekúndu og þið eruð einum manni færri. 

Í þættinum er einnig rætt um muninn á því að vera trúaður íþróttamaður í Bandaríkjunum eða Suður-Ameríku, og á hinu guðlausa Íslandi. Við heyrum í Tim Teabow og Lebron James og kíkjum í Vatíkanið til að rifja upp þegar Emil knúsaði páfann, að hætti hafnfirskra hvítasunnumanna. 

Í þættinum segir Emil meðal annars frá sinni Guðsmynd og hvernig forsjá Guðs hefur fylgt honum í gegnum hans feril; dýpstu dalina og upp á hæstu hæðir.

„Á sínum tíma var ég leikmaður Reggina í Seríu A og fór niður í Seríu C til Hellas Verona. Mér leið eins og ferillinn væri að deyja út þarna fyrir sjö árum, ég var á svo mikilli niðurleið. En þegar öllu er á botninn hvolft var það algjört gæfuspor því það var mitt besta skref á ferlinum. Ég vil meina að allt sé í Guðs hendi,“ segir Emil. „Maður skilur ekkert alltaf Guðs leiðir, en eftir á þá sé ég að þetta var mitt besta skref á ferlinum.“

Hinn ungi Hörður Björgvin Magnússon lofar almættið að leik loknum.

Kannski er einhver trúartaug í okkur öllum, kannski er hún okkur í blóð borin. Kannski var það opinberunin í anda Tómasar frá Akvínó sem birtist í leiknum fræga gegn Króatíu í vor, leiknum sem Emil bað fyrir. Í öllum fagnaðarlátunum á síðustu sekúndum leiksins, leit markaskorarinn, hinn ungir Hörður Björgvin Magnússon til himins og reisti fingur upp í loft. 

„Er það?“ spyr Emil og hlær. „Stal hann þessu ekki bara af Neymar? Hann hefur séð þetta svo oft í sjónvarpinu og vissi ekkert hvernig hann átti að fagna. Nei nei, ég meina, hver er trúaður og ekki trúaður. Þetta er ekki okkar að dæma. Ég þarf að spyrja hann út í þetta.“

Smelltu hér til að hlusta á annan þáttinn í heild sinni.

Markmannshanskarnir hans Albert Camus eru á dagskrá á laugardögum í vetur. Umsjónarmaður er Guðmundur Björn Þorbjörnsson, og tæknimaður er Hrafnkell Sigurðsson. 

Tengdar fréttir

Trúarbrögð

„Hvað ef íþróttamaður héldi að hann væri Guð?“