Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Stakk mann í dyragættinni á Metro

Mynd með færslu
 Mynd: 360° - Ja.is
Karlmaður var stunginn á skyndibitastaðnum Metro í Kópavogi í kvöld að því er sjónarvottum virtist upp úr þurru. Tveir piltar á tvítugsaldri voru handteknir síðar í kvöld grunaðir um að bera ábyrgð á árásinni. Maðurinn var stunginn við dyr skyndibitastaðarins og blæddi mikið. Hann mun þó ekki vera í lífshættu.

Sjónarvottar lýstu atvikinu þannig að hún virtist nánast að tilefnislausu. Maðurinn hefði ekki þekkt piltana tvo en annar þeirra hefði stungið manninn eftir orðaskipti, hvorki hefði komið til slagsmála eða annarra stympinga. Veitingasal staðarins var lokað vegna árásarinnar og lögregla rannsakaði vettvang og ræddi við vitni. Staðurinn var þó áfram opinn og veitingar afgreiddar í bílalúgu. Starfsfólki var þó brugðið og sagði einn þeirra að þetta hefði fengið á alla.

Lögreglumenn úr stöð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á Dalbraut voru fyrstir á vettvang. Þeir handtóku tvo pilta á tvítugsaldri. Þeir eru í haldi lögreglu en ekki er gert ráð fyrir að þeir verði yfirheyrðir fyrr en á morgun.

Málið er komið í hendur rannsóknardeildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

DV.is greindi fyrst frá málinu.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV