Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stafræn ökuskírteini á byrjunarstigi hér á landi

04.12.2019 - 17:53
Mynd: Apple / Apple
Með tilkomu stafrænna lausna á sviði rafrænna greiðslna er hætt við að önnur skilríki séu ekki höfð meðferðis þegar þeirra er þörf, eins og ökuskírteini, vinnuvélaskírteini og fleira. Norðmenn og fleiri lönd hafa gefið út ökuskírteini á stafrænu formi.

Fjallað var um málið í Lestinni á Rás 1. Hlusta má á innslagið hér að ofan.

Í október svaraði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra fyrirspurn á Twitter um rafræn ökuskírteini. Hún benti á að strangt til tekið heyri málefni ökuskírteina undir ráðuneyti Samgöngu og sveitarstjórnarmála. Það væri hins vegar í skoðun að taka upp rafræna skráningu og útgáfu ökuskírteina innan verkefnisins um Stafrænt Ísland sem er verkefnastofa innan fjármálaráðuneytisins. Meginverkefni þess er að gera opinbera þjónustu sjálfvirkari samkvæmt Einari Birki Einarssyni sem fer fyrir Stafrænu Íslandi.

„Það má eiginlega segja að það verkefni sé tvíþætt og er í raun og veru á byrjunarstigi. Í fyrsta lagi snýst það um það að við þurfum að breyta lögum þannig að ökuskírteini megi vera stafræn og geti verið í símanum. Í dag má eingöngu gefa þau út á plastkorti. Hins vegar þá að koma sjálfu skírteininu inn í símann. Það er verið að eyða kortum út um allt, bæði debetkortum og kreditkortum og allskonar afsláttarkortum. Því er eðlilegt að ökuskírteinin verði þannig líka. Það sem að við þurfum að gera er að breyta lögum fyrst og svo finna lausn með ríkislögreglustjóra þannig að við séum með örugga lausn á símanum þar sem ökuskírteinið er geymt inn á.“ segir Einar Birkir.

Þetta er þá í einhverskonar ferli, það er vilji til að breyta þessu?

„Já, það er það. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem við höfum skilgreint á næsta ári hjá Stafrænu Íslandi. Við erum í samtali við dómsmálaráðuneytið að gera lagabreytingarnar þannig að við megum gefa út kort með þessum hætti. Það að finna lausn á því hvernig við komum þessu inn í app í símanum er eitthvað sem ríkislögreglustjóri þarf að vinna mjög náið með. En í sjálfu sér eru til ótal lausnir á markaðnum. Við teljum að þetta þurfi ekki að vera mjög flókið verkefni. Við teljum að því ætti að ljúka á næsta ári.“ segir Einar.