Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Stærsti jarðskjálfti í Öskju síðan 1992

27.08.2014 - 05:09
Mynd með færslu
 Mynd:
Töluverð skjálftavirkni hefur verið í norðanverðum Vatnajökli í nótt. Stærsti jarðskjálfti næturinnar varð skömmu eftir miðnætti í Bárðarbungu, 5,3 að stærð. Þá varð einnig skjálfti skammt austan við Öskju, 4,5 að stærð en það er stærsti skjálfti í Öskju síðan 1992.

Tveir stórir skjálftar mældust í Bárðarbungu frá miðnætti til klukkan þrjú. Skjálftavirkni var nokkuð meiri en síðustu daga og stóru skjálftarnir sagðir afleiðing þrýstingsbreytinga sem tengjast framrás kvikugangsins í átt að Öskju.

Pálmi Erlendsson, sérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir jarðskjálftavirkni hafa aukist uppúr klukkan eitt í nótt. Nærri 500 skjálftar mældust í nótt, nánast allir við norðurenda gangsins. Gangurinn er orðinn tæpur 41 kílómetri og kvikan mjakast því í átt að Öskju en hægt hefur á framgangi hennar frá því um helgina.