Stærsta sýning Borgarleikhússins

21.02.2013 - 20:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Á morgun verður frumsýnd stærsta sýning sem sett hefur verið upp í Borgarleikhúsinu. Um 200 manns hafa komið að uppsetningunni með einum eða öðrum hætti. Göldrótta barnfóstran Mary Poppins sýnir sig á Íslandi í fyrsta sinn.

Vinna við sýninguna hófst síðasta vor. Það er uppselt langt fram á næsta vor og því sjá 90 starfsmenn leikhússins, sem standa að hverri einustu sýningu, fram á mikla vinnu:

„Þetta er gríðarlega umfangsmikil sýning, í fyrsta lagi er gríðarlega stór hópur á sviðinu, leikarar, dansarar, söngvarar og hljómsveitarmenn, og svo er stór hópur sviðs- og tæknimanna á bakvið, að framkalla alla galdrana í sýningunni, það er umfangsmikil leikmynd, umgjörð, myndband og búningar og miklir leikhústöfrar,“ segir Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri.

Jóhanna Vigdís Arnardóttir leikkona segir að ævintýrið um Mary Poppins hafi verið í uppáhaldi hjá sér mjög lengi. Mary Poppins lýsir hún sem bjargvætti. „Þetta er semsagt um þessa kjarnakonu sem kemur eins og fjölskylduþerapisti og reddar þessari fjölskyldu sem er aðeins búin að fara villur síns vegar.“

Hugmyndafræði þessarar útsjónarsömu barnfóstru er eitthvað sem Jóhanna Vigdís telur vert að tileinka sér. „Hún er göldrótt að vissu leyti en aðallega er hún svona, hún heldur upp á gleðina og það að sjá það jákvæða og skemmtilega í lífinu, ekki að missa sig í hinu daglega amstri heldur að muna eftir því að hafa gaman.“