Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stærsta hlaup í Múlakvísl í 8 ár

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hlaup gæti hafist í Múlakvísl á næstu dögum. Sérfræðingur í jöklarannsóknum segir viðbúið að hlaupið verði það stærsta í átta ár. Búast megi við að hringvegurinn lokist. Samkvæmt mælingum eru samtals sex milljónir rúmmetra í tveimur kötlum sem er sérstaklega fylgst með.

Fyrir rétt tæpum átta árum kom hlaup úr sigkötlum í Mýrdalsjökli sem var svo stórt að það hreif með sér brúna yfir Múlakvísl. Hringvegurinn var því rofin. Vegsamband komst svo á að nýju sex dögum seinnar þegar lokið var við smíði bráðabirgðabrúar.

Almannavardeild ríkislögreglustjóra varaði við því í dag að hlaup geti komið í Múlakvísl á næstu dögum. Katlar í Mýrdalsjökli voru mældir í maí síðastliðnum til að reyna að meta hversu mikið jökulvatn leyndist undir kötlunum við jökulbotn. Það getur gefið vísbendingar um hversu stórt hlaup getur orðið í Múlakvísl. 

„Við erum búin að gera mælingar á þessum sömu kötlum fjórum sinnum síðan 2017. Það má búast við að hlaup sem kæmi út af þessu verði stærsta hlaup sem hefur orðið í Múlakvísl síðustu átta ár. Að öllum líkindum verður það talsvert minna en hlaupið 2011 sem tók af brúna en samt sem áður yrði þetta stærsta hlaup síðan þá. Meginskýringin er sú að það hljóp ekkert undan þessum kötlum síðasta sumar,“ segir Eyjólfur Magnússon, sérfræðingur í jöklarannsóknum við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

Ný brú var reist yfir Múlakvísl fyrir sex árum. Eyjólfur segir að hún ætti að standa af sér hlaup. 

„Atburðir eins og við erum að sjá núna mun mögulega loka veginum tímabundið en mun ekki valda miklum skemmdum,“ segir Eyjólfur.

Hlýindin í sumar gætu haft áhrif.

„Það gæti valdið því að þetta hlaup verði með fyrra fallinu en venjulega. Það hleypur oft úr þessum kötlum í júlí eða byrjun ágúst. Það hefur verið svona reglan. Það er eins og sumarleysingin komi af stað þessum hlaupum. Þannig að þegar sumarleysingin nær hámarki uppi á hájöklinum eða skömmu eftir það. Þá virðist oft eins og þessir katlar tæmist,“ segir Eyjólfur.