Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Stærsta gos 20. aldarinnar

29.03.2017 - 06:38
Innlent · eldgos · Hekla · Hekla 1947
Skjáskot úr mynd Ósvaldar Knudsen um Heklugosið 1947
Upptaka af lýsingu Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings, úr flugferð að Heklu, 29.mars 1947. Myndin er skjáskot úr heimilidamynd Ósvaldar Knudsen um gosið (birt með leyfi)  Mynd: Ósvaldur Knudsen
„Eldsúlurnar á háfjallinu ná um 800 metra í loft upp. Þyrla þær upp glóandi björgum feikilega miklum að stærð. Stórbjörgin þeytast í loft upp með kyngikrafti en falla svo niður í eldhafið aftur,“ svona lýsti blaðamaður Morgunblaðsins gosinu, morguninn sem það hófst. Gosið stóð í rúmt ár og reyndist vera það stærsta á Íslandi á síðustu öld. „Hekla er tilbúin í næsta gos,“ segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur, „en hún gæti látið bíða eftir sér.“

„En ægifegurst er Heklugosið í myrkri næturinnar þegar eldstraumarnir þeytast hátt mót himni, splundrast í allar átti og eldregnið dynur á fjallinu umhverfis - þegar fjallsbungan virðist loga á löngu svæði, en hraunstraumarnir glita hlíðarnar.“ (Þjóðviljinn, 1. apríl, 1947)

29. mars 1947 vaknaði Hekla af blundi sem staðið hafði í 102 ár. Almennt er talið að eldsumbrotin hafi hafist kl. 06.41 að morgni. Snarpir skjálftar mældust í upphafi og gosið fór af stað með látum; um fjögurra kílómetra löng sprunga opnaðist og gosmökkurinn náði fljótlega um 30 kílómetra hæð. Hraunstraumar lágu niður fjallið og bræðsluvatn olli miklu flóði í Ytri-Rangá. Mikið öskufall varð fyrstu daga gossins suður af Heklu og olli umtalsverðu tjóni.

Hópur vísindamanna og fréttamanna flaug austur að Heklu um hádegisbil með einni af Dakotavélum Flugfélags Íslands. Með í för var Sigurður Þórarinsson, jarðfræðingur, sem lýsti því sem fyrir augu bar: 

Upptaka af lýsingu Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings, úr flugferð að Heklu, 29.mars 1947. Myndin er skjáskot úr heimilidamynd Ósvaldar Knudsen um gosið (birt með leyfi) - Mynd: Ósvaldur Knudsen / Ósvaldur Knudsen
Lýsing Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings á gosinu, 29. mars 1947. Myndin er skjáskot úr heimilidamynd Ósvaldar Knudsens um gosið (birt með leyfi).

Stærstu eldsumbrot á 20. öld. 

Gosið í Heklu 1947 til 1948 er talið vera stærsta gosið hér á landi á síðustu öld. Um 0,8 rúmkílómetrar hrauns runnu meðan á því stóð og þöktu um 40 ferkílómetra lands. Talið er að fyrsta daginn hafi um 30 milljón rúmmetrar af ösku fallið á land.

Gosið vakti gríðarlega athygli meðal fólks og ekki að ástæðulausu, segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur og prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands. Á þessum tíma höfðu mjög fáir Íslendingar upplifað eldgos, því síðasta stóra gosið hafði verið í Kötlu 1918. 

Fjöldi fólks fór úr Reykjavík austur yfir fjall til að virða fyrir sér gosið; í Morgunblaðinu 1. apríl 1947 segir frá hópferðum Reykvíkinga í Þjórsárdal...

„...til að horfa á þá ferlegu sýn því þótt fjarlægðin sje um 20 kílómetr. til eldanna, má greinilega sjá hvernig fjallið spúir hvítglóandi björgum sem þeytast langar leiðir í loft upp, splundrast og þeytast niður hlíðarnar en í fjallshlíðunum eru ótal eldblossar og 'eldaugu' þannig að fyrst í stað virðist sem fjallið sje opið og það sjáist inn í eldinn eins og gegnum net.“

Mynd: RUV / ruv
„Nánast enginn á Íslandi hafði upplifað eldgos, þegar þetta stóra gos kemur í Heklu 1947,“ segir Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor við Jarðvísindadeild HÍ

Fyrsta fjölmiðlagosið

Gosið í Heklu 1947 er einnig merkilegt fyrir þær sakir að það var fyrsta eldgosið sem var myndað og kvikmyndað í bak og fyrir. Blaða- og fréttamenn frá öllum helstu fjölmiðum landsins í þá daga hópuðust í flugferð sem farin var um hádegisbil, 29. mars, nokkrum klukkustundum eftir að gosið hófst. Fréttamaður Ríkisútvarpsins, Hendrik Ottósson var þar með í för og lýsti því sem fyrir augu bar í gegnum talstöð flugvélarinnar yfir í loftskeytastöðina í Gufunesi, þar sem rödd hans var tekin upp á stálþráð og síðan útvarpað - í fyrsta sinn hér á landi sem fréttamaður í útvarpi lýsti (næstum því í beinni) aðstæðum af vettvangi. 

Mynd: ruv / Ruv
Upptaka af lýsingu Hendriks Ottóssonar fréttamanns Ríkisútvarpsins úr flugferð við upphaf Heklugossins.

Öll dagblöðin slógu upp fyrirsögnum með stríðsletri, daginn eftir að gosið hófst - en aðeins Vísir og Morgunblaðið náðu að koma fréttunum á forsíðurnar sama dag; Vísir var þá síðdegisblað, og Morgunblaðið kom með aukaútgáfu um hádegisbil, 29. mars. Daginn eftir var eins og ritstjórar allra blaðanna hefðu haft samráð um fimm dálka fyrirsagnir - og sumar voru hástemmdar „Háfjall Heklu logandi eldhaf“ (Morgunblaðið) og „Heklugosið ákaft og vaxandi“  (Þjóðviljinn). Hægt er að lesa alla þessa umfjöllun blaðanna á tímarit.is, vef Þjóðarbókhlöðunnar. 

Forsíður íslenskra dagblaða frá þessum tíma. Morgunblaðið hafði þegar verið borið út til áskrifenda að morgni 29. mars, en nokkrum klukkustundum síðar kom aukaútgáfa blaðsins með fyrstu fréttum af gosinu.

Breytti pípulögnum Heklu

Eftir þetta stórgos í Heklu hefur gosmynstur fjallsins breyst verulega. Næsta gos varð 1970 og síðan þá hefur Hekla gosið á um það bil tíu ára fresti. Gosin hafa verið fremur lítil, miðað við eldsumbrotin 1947 og fyrri gos, og hafa fremur einkennst af hraunrennsli en gríðarmiklu öskufalli.

Mynd: RUV / ruv
„Hekla breytti algjörlega um goshegðun við þetta ´47 gos,“ segir Páll Einarsson.

Tilbúin - en gæti látið bíða eftir sér

Rannsóknir undanfarinna ára á innri gerð Heklu hafa breytt talsvert hugmyndum jarðvísindamanna um uppbyggingu fjallsins. Páll segir að betri mælingar, bæði skjálftamælingar og mælingar á aflögun á yfirburði, hafi leitt í ljós að kvikuhólfið undir fjallinu sé á meira dýpi en áður var talið. 

Mynd: RUV / ruv
„Hekla er á leiðinni að fara að gjósa. Hins vegar vitum við ekki hvað leiðin er löng.“

Ítarefni 

Hér að neðan má sjá innslag Ómars Ragnarssonar um Heklugosið í þættinum Fréttir Aldarinnar, sem RÚV framleiddi eftir síðustu aldamót. Einnig er hér að finna viðtalið við Pál Einarsson í heild sinni, sem og heimildamynd Ósvaldar Knudsens kvikmyndagerðarmanns, Hekla on Fire, um Heklugosið 1947. 

Mynd: RUV / RUV
Umfjöllun um Heklugosið 1947 í þættinum Fréttir Aldarinnar.
Mynd: RUV / ruv

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV
atli's picture
Atli Þór Ægisson
vefritstjórn