Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stærsta aðgerð gegn mafíunni síðan í Palermo

20.12.2019 - 07:01
epa07416541 Policeman patrol in the shantytown of San Ferdinando (Reggio Calabria), Italy, 06 March 2019. The clearing operations of the San Ferdinando shantytown began on 06 March. Around 900 people will be transferred to reception centers.  EPA-EFE/MARCO COSTANTINO
 Mynd: EPA
Stjórnmálamenn og aðrir embættismenn voru meðal yfir 300 handtekinna í aðgerð ítölsku herlögreglunnar gegn 'Ndrangheta mafíunni. Aðgerðin er sögð sú næst umfangsmesta í sögu Ítalíu. Rannsókn yfirvalda hófst árið 2016 og teygir sig yfir 11 héruð á Ítalíu. Grunaðir mafíósar voru svo eltir til Þýskalands, Sviss og Búlgaríu. Um 2.500 lögreglumenn tóku þátt í aðgerðinni.

Þau grunuðu eru sökuð um ýmislegt, meðal annars fyrir fjárkúgun, morð, peningaþvætti og taka þátt í skipulagðri glæpastarfsemi mafíunnar. 

Meðal hinna handteknu er Giancarlo Pittelli. Hann er þekktur lögmaður á Ítalíu og var skráður í Forza Italia, flokk Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu. Pittelli var nefndarmaður í dómsmálanefnd og stýrði héraðsdeild flokksins í Catanzaro. Auk hans voru meðal annars embættismaður úr héraðsstjórn, borgarstjóri, stjórnarmaður í stjórnmálaflokki og lögreglustjóri handteknir vegna gruns um að vera mafíósar.

Saksóknarinn Nicola Gratteri kveðst hafa unnið að rannsókn málsins síðan hann tók til starfa sem yfirsaksóknari í Catanzaro. Hann segir þetta stærstu aðgerð gegn mafíunni síðan risaréttarhöldin í Palermo. Þá voru nærri 500 mafíósar úr Sikileyjarmafíunni ákærðir í Palermo á milli áranna 1986 og 1992.

Guardian segir aðgerðina í gær hafa leitt nokkur leyndarmála 'Ndrangheta mafíunnar í ljós. Meðal þeirra er setning sem mafíósar verða að fara með til þess að fá að komast í hæstu stöður mafíunnar. Setningin er sögð höfð eftir þremur riddurum frá 17. öld. Þjóðsagan segir að riddararnir þrír hafi stofnað Cosa Nostra á Sikiley, Camorra í Campania og 'Ndrangheta í Calabria.