Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Staðgöngumæðrun tekin af dagskrá

17.09.2011 - 18:03
Samkomulag náðist um það rétt fyrir fréttir að leggja til hliðar tillögu Ragnheiðar Elínar Árnadóttur og sautján annarra þingmanna um staðgöngumæðrun. Tillagan fái hins vegar þinglega meðferð á komandi haustþingi.

Annars hafa mál runnið í gegnum þingið í dag, gjaldeyrishöft til ársloka 2013, heimild Íbúðalánasjóðs til að veita óverðtryggð lán og sveitarstjórnarlög eru meðal mála sem eru orðin að lögum.

Stóra málið, Stjórnarráðsfrumvarpið varð að lögum með 28 atkvæðum stjórnarliða og Hreyfingarinnar gegn 14 atkvæðum stjórnarandstöðu. Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

139. löggjafarþingi er að ljúka og kemur nýtt þing saman laugardaginn 1. október. Þetta verður að auki síðasti septemberstubbur þingsins því ný þingskaparlög taka gildi 1. október og á næsta ári verður þing sett fyrr.

Sveitarstjórnarlög, stjórnarráðsfrumvarp, gjaldeyrishöft og óverðtryggð lán Íbúðalánasjóðs er meðal mála sem urðu að lögum frá Alþingi í dag.