Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Staðgöngumæðrun á haustþingi

18.09.2011 - 12:39
Fjölda grundvallarspurninga, sem tengjast staðgöngumæðrun, er ósvarað, segir formaður þingflokks Vinstri grænna. Þær gangi þvert á flokka og spanni allan tilfinningaskalann. Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks leggur áherslu á að málið gangi að lokum til atkvæðagreislu.

Tillaga Ragnheiðar Elínar Árnadóttur og 17 annarra þingmanna um staðgöngumæðrun var á dagskrá þingfundar í gær. Ljóst var að málið var í miklum ágreiningi og var frávísunartillaga lögð fram.

Samkomulag náðist hins vegar rétt fyrir þinglok um að leggja málið til hliðar en yrði tekið til þinglegrar meðferðar á komandi haustþingi.

„Staðgöngumæðrun snertir flesta strengi tilfinninga, hún snertir siðfræði, trúmál, viðhorf til tæknifrjóvgunar, mannréttindi og fleira sem er of langt upp að telja. Fjölda grundvallarspurninga er ósvarað svo afstaða fólks geti byggst á upplýstri umræðu,“ sagði Þuríður Backman, þingflokksformaður Vinstri grænna.

Ragnheiður Elín Árnadóttir tók undir með Þuríði. „Og það sem er mikilvægast í þessu samkomulagi er að málið gangi til atkvæða. Það er það sem við þingflokksformenn komum okkur saman um í dag á okkar fundi, að málinu verði lokið í atkvæðagreiðslu hér á haustþingi.“