Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Staðan enn galopin“

08.11.2017 - 15:57
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, segir að staðan sé enn galopin í stjórnarmyndunarviðræðum. Enginn sé með umboðið og allir séu að tala við alla. „Það er ekkert stjórnarmynstur í kortunum, enn sem komið er.“

Katrín segist hafa talað við flesta og suma oftar en einu sinni. „Ég legg á það áherslu á það hér eftir sem hingað til, og Vinstri græn, að leiða ríkisstjórn sem mynduð er um ákveðin málefni, um uppbyggingu á samfélagslegum innviðum, mynduð um tiltekna sýn um Ísland og að við stefnum fram á við.  Við höldum því til haga í þessum samtölum öllum. Svoleiðis er bara staðan.“

Katrín segist vera reiðubúin til að leiða slíka ríkisstjórn. „Mér sýnist nú nánast allir vera tilbúnir til að leiða ríkisstjórn. Það eru margir með þá kröfu á lofti.“

Um næstu skref segist Katrín telja að samtöl haldi áfram. „Og vonandi fara línur að skýrast.“ Hún segist hafa rætt við forsetann í gær og upplýst hann þá um stöðu mála. Ekki hafi komið boð frá Bessastöðum. 

Katrín segir að búið sé að reyna að mynda hennar óskaríkisstjórn, hún hafi verið hennar fyrsti kostur. „Það sem við höfum gert síðan er að teikna upp aðra þá valkosti að meirihlutastjórnum sem eru í stöðunni og átt þessi samtöl um þá. Það eru nokkrir kostir eins og kunnugt er. Nú er staðan þannig að niðurstöður þessara kosninga gefa enga afgerandi niðurstöðu til hægri eða vinstri. Við erum með átta flokka á þingi. Það liggur fyrir eins og ég hef svo sem sagt frá byrjun, að allir þurfa að nálgast þetta verkefni með öðrum hætti en að þeir séu að fá sínar ítrustu kröfur uppfylltar. Þannig er það bara og að því leytinu til er ekkert hægt að tala um óskaríkisstjórn, af því að auðvitað vilja allir stjórnmálamenn fá sínar ítrustu kröfur fram. Nú er bara spurningin hvort fólk nái saman, hvort að það nái að byggja upp traust og hvort það náist einhver ásættanleg ríkistjórn sem er góð fyrir Ísland. Það er bara stóra málið.“

Katrín útilokar ekki ríkisstjórn með Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, jafnvel með aðkomu Samfylkingar. „Það er ekki útilokað en það er ekkert meira á teikniborðinu umfram aðra þá kosti sem við eigum. Það eru allir kostir opnir.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV