Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Staða olíulinda á Drekasvæði skýrist í vor

16.10.2015 - 18:32
Mynd með færslu
 Mynd: Eykon - Heiðar Guðjónsson - Oceanic Challanger á Reyðarfir
Næsta vor verður komin góð mynd á þær olíu- og gaslindir sem kannaðar hafa verið á Drekasvæðinu. Þetta segir Heiðar Guðjónsson, stjórnarformaður Eykon Energy.

„Mánaðarmótin mars-apríl höfum við betri mynd og mjög góða mynd af því hvað er þarna undir botninum,“ segir Heiðar. Eykon Energy hefur undanfarið unnið að rannsóknum á svæðinu.

„Það gekk svo vel núna síðsumars að við erum að reyna semja við sama fyrirtæki, CGG, um að gera þrívíðar mælingar fyrir okkur. Það segir eitthvað um áhugann að við séum eina fyrirtækið sem er að bæta í,“ segir Heiðar og vísar þar til hve mikill samdráttur hefur orðið í olíuleit.

Heiðar flutti erindi á Arctic Circle í Hörpu fyrr í dag. Verðfall olíu og kreppa í olíuleit hefur gert það að verkum að kostnaður við leitina hefur dregist verulega saman.

„Við erum að borga einn þriðja, minna en einn þriðja, það er meira en 70% afsláttur miðað við það sem við vorum með í okkar áætlunum upphaflega.“ 

Eykon áætlar að bora þrjár holur en ekki eina líkt og áætlað var í upphafi. En er óhætt að vinna olíu á norðlægum slóðum þar sem sjór er kaldur, niðurbrot hægara og vistkerfið viðkvæmt?

„Norðurslóðir eru ekki það sama og Norðurslóðir. Norðurslóðir þar sem golfstraumnum nýtur við, eins og í Barentshafi og hjá okkur úti á Drekasvæðinu. er allt annað umhverfi heldur en norður af Síberíu, Alaska eða Kanada. Þar sem er ís 300 daga á ári. Það er íslaust þar sem við erum, ölduhæðin er minni heldur en í Norðursjó, veðráttan er svipuð og í Noregshafi. Í Noregshafi og Norðursjó eru menn búnir að vinna olíu á svona dýpi í hálfa öld þannig að það er góð reynsla af því.“