Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Staða álversins alvarleg fyrir Hafnarfjörð

12.02.2020 - 10:39
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
„Þetta er alvarlegt mál og við fylgjumst náið með framvindu þess. Við höfum áhyggjur,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, um fréttir af álverinu í Straumsvík. Fyrirtækið hefur tilkynnt að reksturinn verði endurskoðaður. Horft sé til ýmissa möguleika, meðal annars að draga úr framleiðslu eða jafnvel lokun álversins. Ástæðan er lækkandi heimsmarkaðsverð á áli og raforkukostnaður sem fyrirtækið segist ekki ráða við.  

„Þetta er 500 manna góður vinnustaður og hefur verið til áratuga. Það skiptir Hafnarfjörð og samfélagið máli að hann starfi áfram,“ segir Rósa. 

Rósa segir bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa fylgst með rekstrinum og muni gera það áfram. „Við vitum að fyrirtækið hefur brugðist við versnandi rekstri undanfarin ár og höfum fengið upplýsingar um það í gegnum tíðina, hvernig þeir hafa verið að bregðast við. Maður veit að þetta er framsækið fyrirtæki sem leitar leiða til að bæta reksturinn,“ segir Rósa. Hún vonar að samtölin við ríkið skili árangri og það nái að leysa farsælla úr vandanum fyrir alla. 

Rósa segir að talað hafi verið um að um helmingur af 500 starfsmönnum fyrirtækisins búi í Hafnarfirði. En það skipti ekki minna máli að mörg fyrirtæki í Hafnarfirði byggi afkomu sína á viðskiptum við fyrirtækið. „Og þetta er gott fyrirtæki sem hefur stutt vel við íþróttahreyfinguna og er okkur mjög mikilvægt,“ segir Rósa að lokum. 
 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV