Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Spurulasti þingmaðurinn með 81 fyrirspurn

10.09.2019 - 11:02
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður pírata.
 Mynd: Fréttir
Ráðherra voru krafðir svara á nýliðnu Alþingi 570 sinnum. Þá var alls óskað 27 sinnum eftir sérstakri umræðu um mál þar sem ráðherrar voru inntir svars. Einn þingmaður sker sig úr hvað varðar fjölda fyrirspurna. Þannig lagði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, lagði fram 81 fyrirspurn. Þetta eru tvöfalt fleiri fyrirspurnir en hjá þeim sem kemur honum næst, Ingu Sæland, þingmanni Flokks fólksins. Alþingi verður sett í dag klukkan hálf tvö með guðsþjónustu og þingsetningarathöfn. 

Ráðherrar veittu 520 skrifleg svör við fyrirspurnum alþingismanna á nýliðnu þingi og 50 munnleg svör. Björn Leví lagði fram 81 fyrirspurn, þar af óskaði hann í 77 tilvikum eftir skriflegu svari. Þingmaðurinn bíður enn svars við fimm fyrirspurnum. Alls óskuðu 18 þingmenn tíu sinnum eða oftar eftir svörum frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar. 

 

En hvað rekur Björn Leví til þess að spyrja ráðherra svo oft?

„Nokkrar af þessum fyrirspurnum eru til allra ráðherra, þannig að það hefur kannski áhrif á fjöldann. En ég kem upprunalega úr gæðaeftirlitsstarfi sem gerir það að verkum að ég er dálítið þjálfaður í því að spyrja spurninga. Svo er ég líka í fjárlaganefndinni þar sem við erum náttúrulega að glíma við mjög stór mál sem varða skattfé almennings. Þar koma oft upp fyrirspurnarmál sem við þurfum að fylgja eftir,“ segir Björn.

En hverju skilar þetta?

„Það skilaði því alla vega í tilviki launa- og kostnaðarupplýsinga þingmanna að það er núna birt reglulega og opinberlega. Loksins þegar kom svar við því þá var ekki hægt annað en að hafa þetta reglulegt. Margar af fyrirspurnum mínum snúast einmitt um það að spyrja um gögn sem ættu að vera aðgengileg án þess að þurfa að spyrja sérstaklega um það,“ segir Björn.

En margir þingmenn hafa aldrei lagt fram fyrirspurn. Er það ekki þægilegra?

„Starfið er ansi fjölbreytt. Það er hægt að gera ekki neitt. Ef það er sannfæring þingmanna að sinna starfinu þannig, þá gera þeir það. Það er ekki mín skoðun. Mig langar að sinna eftirlitshlutverkinu sem mér finnst ég hafa,“ segir Björn. 

Verða ráðherrarnir ekkert pirraðir á þér?

„Jú, pínulítið. Nú er held ég í utanríkisráðuneytinu, og kannski einhverjum fleirum, farið að taka fram í lok fyrirspurnar hversu langan tíma tók að svara fyrirspurn, sem mér finnst bara mjög sniðugt,“ segir Björn. Hann bendir jafnframt á að stjórnsýslan sé ekki mjög stór og því sé það fárra manna verk að setja saman svör fyrir fyrirspurnum.

Fjölbreytileg málefni í sérstakri umræðu

En þingmenn geta veitt ríkisstjórninni aðhald með öðrum hætti. Þannig óskuðu 27 þingmenn um sérstaka umræðu um mál. Ráðherrar voru krafðir svara um ýmis brennandi málefni í þeim umræðum, til að mynda stöðu Landsréttar, ópíóðafaraldur, stöðu ferðaþjónustunnar, öryggis- og varnarmál - og einnig tækifæri garðyrkjunnar. 

 

 

 • Albertína Friðbjörg Elíasdóttir - 2 - Framtíð og efling íslenska sveitarstjórnarstigsins, Staða ferðaþjónustunnar
 • Anna Kolbrún Árnadóttir - 1 - Bráðavandi Landspítala
 • Ari Trausti Guðmundsson - 1 - Erlendar fjárfestingar í ferðaþjónustu
 • Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir - 1 - Staða iðnnáms
 • Ásmundur Friðriksson - 1 - Tækifæri garðyrkjunnar
 • Birgir Þórarinsson - 1 - Staða íslensku millilandaflugfélaganna og eftirlitshlutverk Samgöngustofu
 • Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir - 1 - Staða innflytjenda í menntakerfinu
 • Björn Leví Gunnarsson - 1 - Ráðherraábyrgð og landsdómur
 • Bryndís Haraldsdóttir - 1 - Gildi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag
 • Guðjón S. Brjánsson - 1 - Staða, þróun og framtíð íslenska lífeyrissjóðakerfisins
 • Guðmundur Andri Thorsson - 1 - Vandi ungs fólks á húsnæðismarkaði
 • Guðmundur Ingi Kristinsson - 2 - Málefni öryrkja, Skerðingar vegna atvinnu- og lífeyrissjóðstekna eldri borgara og öryrkja
 • Hanna Katrín Friðriksson - 2 - Fjarlækningar, Orkuöryggi þjóðarinnar
 • Inga Sæland - 1 - Efnahagsleg staða íslenskra barna
 • Jón Þór Ólafsson - 1 - Heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar
 • Karl Gauti Hjaltason - 1 - Drengir í vanda
 • Kolbeinn Óttarsson Proppé - 1 - Almenningssamgöngur og borgarlína
 • Líneik Anna Sævarsdóttir - 1 - Eignarhald á bújörðum
 • Logi Einarsson - 2 - Húsnæðismál, Kjaramál
 • Rósa Björk Brynjólfsdóttir - 1 - Öryggis- og varnarmál
 • Sigurður Páll Jónsson - 1 - Forvarnir
 • Smári McCarthy - 2 - Loftslagsmál, Skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC)
 • Vilhjálmur Árnason - 1 - Atvinnustefna á opinberum ferðamannastöðum
 • Willum Þór Þórsson - 2 - Staða Íslands í neytendamálum, Staða sauðfjárbænda
 • Þórhildur Sunna Ævarsdóttir - 1 - Staða Landsréttar
 • Þorsteinn Sæmundsson - 2 - Málefni lögreglunnar, Ópíóíðafaraldur og aðgerðir til að stemma stigu við honum
 • Þorsteinn Víglundsson - 2 - Íslandspóstur, Starfsmannaleigur og eftirlit með starfsemi þeirra

 

Lesa má sér til um umræðurnar á vef Alþingis. Einnig er þar að finna upplýsingar um skriflegar fyrirspurnir og munnlegar fyrirspurnir.